Hverfishleðslur opna að nýju eftir að héraðsdómur fellir úrskurð úr gildi

Samgöngur

Maður hleður rafbíl

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í dag úr gildi úrskurð kærunefndar útboðsmála og mun Orka náttúrunnar því opna aftur þær 156 hleðslustöðvar í Reykjavík sem þeim var gert skylt að loka í júní.  Búist er við að hverfishleðslurnar opni aftur í vikunni.

Í dómi sínum í dag segir héraðsdómur að „málsmeðferð kærunefndar útboðsmála hafi verið verulegum annmörkum háð“ þ.á.m. vegna þess að kröfur kæranda í kærumáli nr. 44/2020 hafi komið of seint fram og að samningsfjárhæð samningsins sem boðinn var út hafi byggst röngum útreikningum nefndarinnar.  Því beri að ógilda úrskurðinn.

Uppsetning hleðslustöðva í hverfum Reykjavíkur er í samræmi við markmið borgarinnar á sviði orkumála og ætlað að hvetja borgara til orkuskipta. Fjöldi rafbíla hefur aukist mikið á undanförnum árum og var útboð um uppsetningu á hleðslustöðvum ætlað að mæta þörfum þeirra sem ekki geta hlaðið við heimili sín. Nú verður aftur boðið upp á þessa þjónustu í hverfum borgarinnar.

Reykjavíkurborg benti í sumar á að krafa kærunefndarinnar um tafarlausa óvirkni samningsins væri íþyngjandi fyrir eigendur rafbíla í borginni sem treystu á aðgang að hverfishleðslunum. Ekki var hins vegar fallist á frestun réttaráhrifa og því hefur verið slökkt á hleðslustöðvunum.