Reykjavíkurborg styður Parísaryfirlýsinguna

Umhverfi

""

Borgarráð hefur samþykkt tillögu borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar, um stuðning við Parísaryfirlýsinguna um loftslagsmál sem birt var 11. desember 2020 á fimm ára afmæli Parísarsamkomulagsins um loftslagsmál.

Boð um stuðning við Parísaryfirlýsinguna barst frá Eurocities samtökunum. Borgarstjóri Parísar, Anne Hidalgo og borgarstjóri Los Angeles, Eric Garcetti, skrifuðu undir yfirlýsinguna 11. desember 2020 á fimm ára afmæli Parísarsamkomulagsins um loftslagsmál. Eurocities samtökin hafa boðið borgum um allan heim að styðja yfirlýsinguna með undirritun.

Í Parísaryfirlýsingunni kemur fram að núverandi heimsfaraldur COVID-19 sé þörf áminning um áhrif mannsins á umhverfið og mikilvægt sé að endurreisn eigi sér stað með sjálfbærum hætti.

Borgir sem skrifa undir Parísaryfirlýsinguna skuldbinda sig meðal annars til að setja aðgerðir í loftslagsmálum í forgang við alla ákvarðanatöku í borginni til að ná kolefnishlutleysi og skapa samfélag sem dafnar með jafnrétti að leiðarljósi. Parísaryfirlýsingin fellur vel að Græna planinu og aðgerðaáætlun þess sem Reykjavíkurborg hefur kynnt sem áætlun sína til að vinna bug á  efnahagssamdrættinum sem heimsfaradur kórónaveirunnar hefur skapað. Reykjavíkurborg mun einnig styðja verkefnið „Race to Zero“ sem byggir á því að hnattrænt neyðarástand ríki í loftslagsmálum og að unnið verði að því að halda hnattrænni hlýnun undir 1,5°C sem er yfirlýst markmið Parísarsamkomulagsins.

Parísaryfirlýsingin fellur enn fremur vel að drögum um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í Reykjavík.