Fyrsta áfanga af uppfærslu á þráðlausu neti Reykjavíkurborgar í nýjasta Wi-Fi 6 staðalinn er nú lokið. Reykjavíkurborg er framarlega í þessari innleiðingu en Wi-Fi 6 er talið eitt af lykilatriðum fyrir þá stafrænu umbreytingu sem borgin stefnir að.
Snjallvæðing heimila og vinnustaða er ör og leiðir til þess að tækjum fjölgar sem tengd eru Internetinu sem veldur meira álagi á netkerfi.Tæknin á bak við Wi-Fi 6 leysir þetta vandamál með bandbreidd sem dreifist á skilvirkari hátt, með auknum flutningshraða og stöðugri og öruggari tengingu. Þetta gerir fólki kleift að sinna mörgum og þyngri gagnavinnslum samhliða svo sem að streyma úr fleiri tækjum á mikilli bandbreidd án þess að það verði hökt eða tafir.
Þessi innleiðing á Wi-Fi 6 er einnig mikilvæg fyrir nútímavæðingu á kennslu- og námsumhverfi borgarinnar. Það veitir skólum borgarinnar tækifæri til að innleiða og tengja fleiri ný tæki fyrir nemendur og kennara og um þessar mundir er að hefjast umfangsmikið tækniátak í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkur.
Wi-Fi 6 er einnig umhverfisvæn tækni þar sem það hjálpar rafhlöðum í farsímum og tölvum að endast allt að 7 sinnum lengur og lengir þar með líftíma tækja og sparar orku.