Reykjavík valin einn áhugaverðasti áfangastaðurinn

Ferðamál

""

Reykjavík skorar hátt í árlegum lesendaverðlaunum hins virta ferðatímarits Condé Nast Traveller, sem tilkynnt voru nýlega. Þar kemst Reykjavík á lista yfir áhugaverðustu smáborgir heims og augljóst er að áhugi ferðalanga á að heimsækja borgina er mikill.

Condé Nast Traveller hefur verið gefið út frá árinu 1987 og nýtur mikilla vinsælda. Árlega veitir tímaritið lesendaverðlaun sem eru meðal þeirra virtustu í ferðageiranum. Þar setjast lesendur í dómarasætin og kjósa meðal annars bestu flugfélögin, hótelin og áfangastaðina. Að þessu sinni tóku yfir átta hundruð þúsund manns þátt í kosningunni og lenti Reykjavík í áttunda sæti listans yfir áhugaverðustu smáborgirnar.

Í efsta sæti listans trónir San Miguel de Allende í Mexíkó en þar á eftir fylgdu San Sebastián á Spáni, Salzburg í Austurríki og Siena á Ítalíu. Kosningin í ár var óhefðbundin að því leyti að ferðalög lágu að mestu niðri vegna COVID-19 faraldursins og þykir kosningin því endurspegla hvaða staði ferðalanga dreymdi helst um að heimsækja á meðan ekki var hægt að ferðast.

Það er um að gera að skoða topp tíu listann og láta sig dreyma um ferðalög til framandi staða:

  1. San Miguel de Allende, Mexíkó.
  2. San Sebastián, Spánn.
  3. Salzburg, Austurríki.
  4. Siena, Ítalía.
  5. Dubrovnik, Króatía.
  6. Brugge, Belgía.
  7. Cambridge, Bretland.
  8. Reykjavík, Ísland.
  9. Galway, Írland.
  10. Kralendijk, Bonaire.