Reykjavík er fyrir okkur öll – ný velferðarstefna tekur á sig mynd

Velferð

""

Í morgun fór fram velferðarkaffi – opinn fundur velferðarráðs. Þar komu fram nokkrir fulltrúar stýrihóps sem unnið hefur að gerð nýrrar velferðarstefnunu og lýstu helstu þáttum hennar og innleiðingunni sem framundan er.  

Haustið 2019 samþykkti velferðarráð að hefja vinnu að nýrri velferðarstefnu fyrir Reykjavíkurborg. Þetta er í fyrsta sinn sem slík heildarstefna hefur verið mótuð. Áfram verða stefnur ákveðinna málaflokka í gildi en velferðarstefnan verður regnhlíf yfir þær allar. Mikill fjöldi fólks hefur þegar komið að gerð stefnunnar, borgarbúar og notendur þjónustunnar, starfsfólk á velferðarsviði, kjörnir fulltrúar og ekki síst fulltrúar hagsmunahópa. 
 
Smelltu hér til að horfa á fundinn í heild sinni, ef myndbandið hér fyrir neðan spilast ekki. 

 

 

Ein þeirra sem á sæti í stýrihópnum er Ásta Þórdís Skjalddal, samhæfingarstjóri hjá Pepp Ísland sem eru grasrót fólks í fátækt. Hún lýsti fyrstu og einni af mikilvægustu áherslum nýju stefnunnar – að engir tveir eru eins. Öll velferðarþjónusta á að taka mið af þeirri staðhæfingu og má merkja áhrif hennar í öllum stefnuáherslum. 

Tilgangur velferðarþjónustu er meðal annars að jafna stöðu fólks, svo það geti nýtt hæfileika sína og látið drauma sína rætast, með þeim stuðningi sem það þarf til þess. Þarfirnar geta verið ólíkar, jafnvel meðal líkra hópa, líkt og Ásta lýsti. „Við getum verið með tvo einstaklinga sem við fyrstu sýn búa við svipaðar aðstæður og fengju því væntanlega sömu aðstoð en þegar farið er að skoða málið betur þá getur staða þeirra verið mjög ólík vegna þess að þeir eiga ólíkan bakgrunn og hafa búið við misgott atlæti. Þannig stendur einstaklingur sem er nýkominn í þær aðstæður að þurfa hjálp mun betur en sá sem hefur lengi búið við slíkar aðstæður. Tímalengd aðstæðnanna breytir þarna heilmiklu þar sem það fer mjög illa með sjálfsmynd fólks að búa við aðstæður sem einkennast af skömm – sama hvort að skömmin liggur hjá einstaklingnum sjálfum, hjá samfélaginu eða ráðamönnum þess,“ sagði hún meðal annars.

Þá benti hún á að sumir biðji um aðstoð á meðan aðrir eigi erfitt með að gera það. Einnig passi fólk misvel í kassa samfélagsins. Af ýmsum ástæðum sem ekki séu alltaf augljósar þurfi sumir meiri og fjölþættari stuðning en aðrir til að geta blómstrað í sínu lífi, sem hljóti á endanum að vera tilgangurinn með aðstoðinni. 

Allt frá því að vinna við gerð stefnunar hófst hefur mikil áhersla verið lögð á víðtækt samráð og hlustun á raddir úr ólíkum áttum. Enn gefst tækifæri til að taka þátt í því, áður en innleiðing hennar hefst. Skoða má drögin að stefnunni hér og í kjölfarið er kjörið að setja inn ábendingu í gegnum samráðsgáttina Betri Reykjavík