Reykjavíkurborg hefur í áratug verið Bókmenntaborg UNESCO og á þessum tíma hefur hún unnið fjölbreytt starf við að efla orðlist í borginni. Afmælinu er fagnað með ársfundi Bókmenntaborga UNESCO í Reykjavík vikuna 6. – 10. september og útgáfu á veglegri bók.
Bókmenntaborgir UNESCO – net skapandi borga
Reykjavík var fimmta borgin í heiminum til að hljóta titil Bókmenntaborg UNESCO og sú fyrsta utan ensks málsvæðis. Í dag eru bókmenntaborgirnar 39 og talsins og hefur fjölbreytni tungumála og heimssvæða aukist jafnt og þétt. Í tilefni afmælisins er ársfundur samstarfsnetsins haldinn í Reykjavík dagana 6. – 10. september og koma gestir frá yfir tuttugu öðrum Bókmenntaborgum til Reykjavíkur. Auk þess taka fulltrúar sem ekki eiga heimangengt vegna heimsfaraldursins þátt í ráðstefnunni með rafrænum hætti.
Erindi – Póetík í Reykjavík, afmælisrit um skáldskap
Í tilefni afmælisins gefur bókaútgáfan Benedikt út greinasafnið Erindi – Póetík í Reykjavík í samstarfi við Bókmenntaborgina , bókin kemur út 9. september nk. í henni eru fjórtán greinar eftir jafn marga reykvíska rithöfunda. Þetta eru þau Alexander Dan, Angela Rawlings, Auður Ava Ólafsdóttir, Bergsveinn Birgisson, Bergrún Íris Sævarsdóttir, Elías Knörr, Gerður Kristný, Hallgrímur Helgason, Hildur Knútsdóttir, Margrét Bjarnadóttir, Mazen Maarouf, Steinar Bragi, Steinunn Sigurðardóttir og Yrsa Sigurðardóttir en ritstjóri er Kjartan Már Ómarsson. í ritinu hugleiða höfundarnir gildi og stöðu ritlistarinnar í íslensku samhengi og velta fyrir sér erindi skáldskaparins um leið og lesendur fá innsýn í þankagang þessara höfunda. Erindin eru eins ólík og höfundarnir eru margir, sum eru ævisöguleg, önnur á mörkum skáldskapar og hugleiðinga og enn önnur fræðileg. Öll eru þau vekjandi og til þess fallin að opna fyrir áframhaldandi umræðu um ritlist, stöðu hennar og höfunda í íslensku menningarlandslagi.
Skapandi borg orðlistar
Á þessum tíu árum hefur Bókmenntaborgin Reykjavík lagt áherslu á að vera hreyfiafl til að styðja við og lyfta fram því sem ekki hefur verið miðlægt í bókmenntaumræðunni. Þar má nefna vinnu með höfundum af erlendum uppruna á Íslandi, stuðning við grasrótarstarf á sviði orðlistar, til að mynda með viðburðahaldi í Gröndalshúsi þar sem skáldum er gefið sviðið, og vinnu með almennings- og skólasöfnum að lestrarhvetjandi verkefnum þar sem lestragleði er í fyrirrúmi. Þá hefur Bókmenntaborgin lagt áherslu á aukinn sýnileika orðlistar í borgarlandinu og komið að fjölda alþjóðlegra verkefna, bæði innan samstarfsnets Bókmenntaborga UNESCO og utan þess. Í öllu sínu starfi leggur Bókmenntaborgin áherslu á breitt samstarf, en meðal fastra samstarfsverkefna má nefna Bókamessu í Bókmenntaborg sem er orðinn einn stærsti bókmenntaviðburður borgarinnar ár hvert, barnamenningarverkefnið SÖGUR og lestrarhvatningu fyrir börn í skólum borgarinnar í nafni skáldfáksins Sleipnis. Fjöldi erlendra gestahöfunda hefur dvalið í skáldaíbúð í Gröndalshúsi síðan húsið opnaði 2017 og frá henni má rekja fjölbreyttar tengingar við Ísland og Reykjavík s.s. Reykjavík sem sögumiðju í erlendum skáldsögum, þýðingasamstarf og skapandi starf milli innlendra og erlendra höfunda.