Opnunartími neyðarskýla rýmkaður vegna veðurs

Velferð

""

Dagopnun verður í neyðarskýlinu við Grandagarð og gistiskýlinu á Lindargötu í dag, vegna appelsínugulra veðurviðvarana. Það er í samræmi við neyðaráætlun málaflokks heimilislausra vegna veðurs, sem hefur verið virkjuð. 

 

Neyðaráætlunin er virkjuð þegar spáð er kuldakasti eða óveðri sem er þess eðlis að hætta sé á ofkælingu eða alvarlegum slysum þeirra sem nýta sér þjónustu neyðarskýla. Gestir gistiskýlisins á Lindargötu og við Grandagarð geta því verið inni í dag. Þá geta gestir Konukots fengið ferð með leigubíl í og úr Skjólinu. Konukot og Skjólið lengja opnunartíma sinn í dag til að konur geti nýtt þetta fyrirkomulag.

 

Í dag verður lögð sérstök áhersla á að skapa notalega stemningu í neyðarskýlunum og öðrum búsetukjörnum málaflokks heimilislausra.

 

Vettvangs- og ráðgjafarteymi Reykjavíkur aðstoðar fólk sem er heimilislaust með miklar og flóknar þjónustuþarfir og leggur áherslu á að kanna stöðu sinna skjólstæðinga í dag. Viðbragðsáætlunin er jafnframt unnin í samstarfi við bráðamóttökur Landspítalans, lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Rauða krossinn, forsvarsmenn tjaldsvæða, BARKA-samtökin, kaffistofu Samhjálpar og tengiliði málaflokks heimilislausra á þjónustumiðstöðvum í Reykjavík.