Opinn fundur um launamun kynjanna

Stjórnsýsla Mannréttindi

""

Að tillögu og frumkvæði Íslands samþykkti mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna að alþjóðlegur jafnlaunadagur yrði haldinn árlega þann 18.september. Af þessu tilefni efna Reykjavíkurborg og forsætisráðuneytið til jafnlaunafundar föstudaginn 17. september nk.

Markmiðið með deginum er að stuðla að launajafnrétti og hvetja til frekari aðgerða til að markmiðið um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf nái fram að ganga í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Fjallað verður um nýja skýrslu Hagstofunnar þar sem launamunur kynjanna mælist enn nokkur hér á landi. Munur á atvinnutekjum karla og kvenna mældist 23.5% en óleiðréttur launamunur var 12.6% og leiðréttur launamunur 4.1%. Þegar horft var til atvinnumarkaða var óleiðréttur launamunur 12.9% á almennum markaði, 11.3% meðal ríkisstarfsmanna og 5.1% hjá starfsfólki sveitarfélaga.

Einnig verður fjallað um áratugastarf sem unnið hefur verið innan Reykjavíkurborgar við að eyða launamun kynjanna fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Reykjavíkurborg hlaut jafnlaunavottun árið 2019 og fjallað verður um reynslu borgarinnar af jafnlaunastaðlinum.

Í pallborðsumræðum verða aðilar vinnumarkaðarins eða þau Drífa Snædal frá ASÍ, Friðrik Jónsson frá BHM, Halldór Benjamín Þorbergsson frá SA og Sonja Ýr Þorbergsdóttir frá BSRB.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, heldur opnunarávarp og í lok fundar heldur Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, ávarp.   Fundarstjóri er Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Þetta er fjarfundur og öll velkomin.  

Hlekkur á fundinn

Dagskrá

8:30 Katrín Jakobsdóttir- opnunarávarp

8:35 Elín Blöndal – Jafnlaunavottun Reykjavíkurborgar,  Framkvæmd og áskoranir

8:50  Kynbundinn launamunur- niðurstöður launarannsóknar, Kristín Þóra Harðardóttir

9:00 Pallborðsumræður en þar sitja;

  • Halldór Benjamín Þorbergsson - SA
  • Sonja Ýr Þorbersdóttir - BSRB
  • Drífa Snædal - ASÍ 
  • Friðrik Jónsson - BHM

Fundarstjóri, Steinunn Valdís Óskarsdóttir , sér um samantekt pallborðs.

9:25 Dagur B. Eggertsson- lokaávarp