Opið samráð um lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar

Íþróttir og útivist Mannlíf

Krakkar að leik á skólalóð

Í vetur hefur verið unnið að mótun lýðheilsustefnu Reykjavíkur til 2030: Heilsuborgin Reykjavík: „Borgin sem ég vil búa í“ í samvinnu við borgarbúa, Embætti Landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Drög að stefnunni eru nú lögð fram til samráðs og er öllum gefinn kostur á að setja fram athugasemdir við hana á síðunni Betri Reykjavík.

Samráðsferlið mun standa yfir í sumar og fyrirhugað að tillaga að lýðheilsustefnu Reykjavíkur verði lögð fyrir borgarstjórn þegar hún kemur aftur saman í haust. Frestur til að gera athugasemdir við stefnuna er til 16. ágúst 2021.

Kjarninn í stefnu Reykjavíkur á sviði lýðheilsu er að fjölga æviárum þar sem íbúar búa við góða heilsu og vellíðan. Hún hefur það markmið að skapa umhverfi og aðstæður sem auka jöfnuð, heilsu og hamingju þannig að allir borgarbúar hafi tækifæri á að njóta lífsins í borg þar sem þeim finnst gott að búa.

Lýðheilsustefna Reykjavíkur er ein af meginstefnum borgarinnar og samofin öðrum stefnum hennar þar sem nær öll starfsemi borgarinnar hefur með beinum eða óbeinum hætti áhrif á heilsu og líðan borgarbúa. Lýðheilsustefnan styður m.a. við markmið Græna plansins sem er sóknaráætlun Reykjavíkurborgar til 2030 í því augnamiði að borgin verði efnahagslega, umhverfislega og félagslega sjálfbær.

Framtíðarsýn stefnunnar er að Reykjavík sé heilsueflandi, sjálfbært og fjölskrúðugt borgarsamfélag sem stuðlar að öryggi, jöfnuði, virkri þátttöku og vellíðan allra.

Leiðarljós í starfsemi Reykjavíkur á sviði lýðheilsu er að áhersla á lýðheilsu sé ofin inn í alla starfsemi og stefnumörkun Reykjavíkur, starfið byggi á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma og valdi ekki skaða .

Meginmarkmið stefnunnar eru þrjú:

  1. Bætt heilsa og vellíðan á öllum æviskeiðum,
  2. Jöfnuður til heilsu og vellíðanar - engin skilin eftir 
  3. Heilsa og vellíðan er vegvísir í allri starfsemi Reykjavíkurborgar.

Hér má sjá lýðheilsustefnu Reykjavíkur til 2030: Heilsuborgin Reykjavík.

Til að ná fram markmiðum lýðheilsustefnunnar er fyrirhugað að setja fram aðgerðaráætlun til tveggja ára í senn út frá stöðumati á hverjum tíma til að mæta helstu áskorunum sem snúa að heilsu og líðan borgarbúa. Hér má sjá fyrstu aðgerðaáætlun stefnunnar sem tekur til áranna 2021-2022.

Til viðbótar við aðgerðaáætlun stefnunnar eru fjölmargar aðgerðir sem falla undir aðrar stefnur og málaflokka Reykjavíkurborgar en eru til þess fallnar að stuðla að bættri lýðheilsu í Reykjavík. Yfirlit yfir þessar aðgerðir og starfsemi, stöðumat o.fl. má sjá í viðaukum við stefnuna.