Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, útnefndi í dag 17. júní, Ólöfu Nordal myndlistarkonu, Borgarlistamann Reykjavíkur 2021 við hátíðlega athöfn í Höfða.
Útnefningin er heiðursviðurkenning til listamanns sem með listsköpun sinni hefur skarað fram úr og markað sérstök spor í íslensku listalífi. Hjálmar Sveinsson, formaður menningar-, íþrótta og tómstundaráðs, gerði grein fyrir einhuga vali ráðsins á Ólöfu. Listamanninum var veittur ágrafinn steinn, heiðursskjal og verðlaunafé og Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari flutti tvö verk við tilefnið.
Ólöf Nordal er fædd árið 1961 í Danmörku. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1981–85, við Gerrit Rietvelt Academie í Hollandi 1985, í Bandaríkjunum við Cranbrook Academy of Art 1989–91 og við höggmyndadeild Yale háskóla 1991–93. Verk Ólafar hafa verið sýnd á öllum helstu sýningarstöðum hér á landi en einnig alþjóðlega og eru hluti af safneignum helstu safna hérlendis. Ólöf er höfundur áberandi verka í almannarými, má þar nefna Geirfuglinn í Skerjafirði, Vitid ér enn - eda hvat? í anddyri Alþingishússins,Bríetarbrekku við Þingholtsstræti og umhverfislistaverkið Þúfu á Granda. Á dögunum var afhjúpað nýtt listaverk Ólafar við Menntaskólann í Hamrahlíð sem ber heitið Auga og seint á síðasta ári var afhjúpað útilistaverk í Portland Maine í Bandaríkjunum sem ber heitið Hella Rock.
Verkum Ólafar í almannarými voru gerð sérstök skil á sýningu í Ásmundarsafni frá nóvember 2019 - janúar 2020 og í október 2019 - janúar 2020 var haldin yfirlitssýningin, Úngl, á verkum Ólafar á Kjarvalsstöðum. Einkasýningar Ólafar eru orðnar 35 talsins en eins hefur hún tekið þátt í fjölmörgum samsýningum um heim allan.
Í verkum Ólafar eru sagnir, þjóðleg arfleifð og menningarlegt minni uppsretta hugmynda sem settar eru fram í ólíkum miðlum og í nútímalegu samhengi. Mörg verka Ólafar sækja innblástur í þjóðsögur, ýmist skráðar eða óskráðar, sagnir sem gengið hafa mann fram af manni og mótast í munnlegri geymd. Ólöf veltir fyrir sér sannleikanum í þjóðsögunni, hvernig þjóðsögur samtímans verða til og í hverju upprunaleiki þeirra felst. Með því að rýna í fortíðina veltir hún upp spurningum um samtíma okkar og framtíð. Hver er sú arfleifð sem mótar sjálfsmynd samtímans? Hvað er satt og hvað er logið? Tengsl mannsins við eigin náttúru og tilvist hans sem viðfangsefnis vísinda og rannsókna, jafnt á sviði félags- og raunvísinda, hafa jafnframt fangað hug Ólafar.
Ólöf hefur hlotið hina ýmsu styrki og viðurkenningar fyrir list sína, m.a. úthlutun úr Listasjóði Dungal, styrk úr Listasjóði Guðmundu sem er ein æðsta viðurkenning sem veitt er á sviði myndlistar á Íslandi og viðurkenningu úr höggmyndasjóði Richard Serra. Á nýársdag 2018 var Ólöf sæmd heiðursmerki hinnar Íslensku Fálkaorðu af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Riddarakrossinn hlaut Ólöf fyrir framlag sitt til íslenskrar myndlistar.
Ólöf hefur í gegnum árin öðlast umfangsmikla kennslureynslu á háskólastigi og reynslu af akademískum störfum. Hún hefur sinnt kennslu í myndlistardeild Listaháskóla Íslands og gegnir nú stöðu prófessors við sömu deild.
Heimasíða Ólafar: https://olofnordal.com/