Öflug viðspyrna með grænum fjárfestingum Reykjavíkurborgar

Útsendingar Stjórnsýsla

""

Snjallvæðing, Borgarlína og grænar lausnir voru áberandi á fjárfestingarfundi sem sendur var út í morgun. Tilefni fundarins var að kynna þær umfangsmiklu fjárfestingar sem borgin, fyrirtæki hennar og Betri samgöngur ohf. eru með í farvatninu.

Útsendingin ásamt kynningum fyrirlesara er aðgengileg á vefsíðunni reykjavik.is/vidspyrna

Ástæðan fyrir þessum gríðarlegu fjárfestingum eru hugsuð sem viðspyrna vegna Covid, til að verja störf og skapa ný störf. Um leið er meginþunga fjármagnsins beint í að tryggja græna viðspyrnu til skemmri og lengri tíma.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fór yfir helstu verkefni borgarinnar og sagði m.a. frá áformum um nýjar sundlaugar, nýja grunnskóla og umfangsmiklar innviðafjárfestingar á þessu ári og næstu árum.

Berglind Rán Ólafsdóttir hjá Orku náttúrunnar sagði áherslu lagða á fjárfestingar sem stuðla að kolefnishlutleysi fyrirtækisins árið 2030 og kolefnishlutleysi starfseminnar á Hellisheiði árið 2025.

Katrín Karlsdóttir hjá Veitum fjallaði um að stærsta einstaka verkefnið væri ný dælustöð við Naustavog. Þá er snjallmælavæðing á dagskrá en áætlað er að skipta út öllum mælum fyrirtækisins í öllum byggingum höfuðborgarsvæðisins fyrir nýja snjallmæla.

Félagsbústaðir fjölguðu íbúðum um 127 á síðasta ári og sagði Sigrún Árnadóttir að  Félagsbústaðir væru að kaupa eignir á langflestum uppbyggingarreitum í borginni.

Davíð Þorláksson hjá Betri samgöngum fór yfir helstu fjárfestingar í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu en þær ná yfir stofnvegi, hjóla- og göngustíga og Borgarlínu. Samtals fara 120 milljarðar í samgönguverkefni á næstu árum. Framkvæmdir við Borgarlínu munu hefjast á næsta ári.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs fjallaði um atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkur. Hún sagði að samtalið við atvinnulífið væri mikilvægt til að skilja þarfir og væntingar þess. Borgin vilji laða til sín og halda í þróttmikil fyrirtæki. Hún sagði borgina vilja öfluga og græna viðspyrnu fyrir íbúa og fyrirtæki.

Fundarstjóri var Björg Magnúsdóttir fjölmiðlakona.