Tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir Rauðhóla hefur verið sett í auglýsingu. Tilgangurinn er að bæta alla umgjörð í kringum umferð gangandi, hjólandi og ríðandi um svæðið til að styðja við góða upplifun fjölbreyttra útivistarhópa af þessu svæði í takt við náttúruna. Markmiðið er jafnframt að hlúa að svæðinu og stuðla að vernd þess.
Í sátt við náttúruna
Rauðhólar eru röð gervigíga og eru mikilvægt jarðfræðilegt svæði. Rauðhólar hafa verið friðlýstir sem fólkvangur síðan 1974, ásamt aðliggjandi svæði í kringum Heiðmerkurveg yfir brúna að Helluvatni. Í tillögunni eru aðalleiðir gangandi og ríðandi um svæðið festar inn á skipulagsáætlun. Er það gert til að auka upplifun ólíkra útivistarhópa í sátt við náttúruna, auk þess sem náttúru- og útivistarstígar eru skilgreindir á uppdrætti.
Jafnframt er nýtt bílastæðahólf skilgreint sem enn fremur er þá upphafsstaður fyrir aðkomu inn í Rauðhólana fyrir þá sem koma akandi að svæðinu.
Búið er að kortleggja helstu jarðminjar og vistgerðir auk fornleifapunkta. Markmið deiliskipulagsins er að hlúa að svæðinu og stuðla að vernd með því að skilgreina og afmarka svæði og leiðir sem lúta að því að tryggja að umhirða, rekstur og framkvæmdir séu í anda skilgreindra markmiða.
Stígakerfi og áningarstaðir
Stígakerfi skipulagsins miðar að bættri skilgreiningu stígakerfis um viðkvæmt svæði Rauðhóla. Skilgreindar eru fjölbreyttar göngu‐ og reiðleiðir innan svæðisins og leiðir teknar út sem ekki þykja ákjósanlegar. Skipulagið byggir á núverandi stígakerfi, en viðbætur við kerfið miða aðallega að því að bæta tengingar og bæta við fjölbreyttari útivistarmöguleikum.
Tveir áningarstaðir eru skilgreindir á svæðinu og tveir útsýnisstaðir. Á áningarstöðum er gert er ráð fyrir látlausum bekkjum og borðum og fræðslu‐ og upplýsingaskiltum um svæðið, náttúrufar og sögu.
Stígum er skipt í þrjár megingerðir: stofnstíga, útivistarstíga og reiðstíga. Stofnstígar eru skilgreindir sem meginstígar fyrir gangandi og hjólandi og auðvelt aðgengi en aðrir stígar fyrir gangandi eru svo sem útivistarstígar og náttúrustígar sem er núverandi slóði og ekki endilega aðgengilegir öllum. Reiðstígar eru einungis ætlaðir hestamönnun og hestaumferð. Umferð vélknúinna ökutækja svo sem bifhjóla, off‐road hjóla/enduró hjóla, vespur eða annað sambærilegt er ekki leyfð á stígakerfi Rauðhólasvæðisins.
Svæðið verði aðgengilegra og höfði til sem flestra
Endurskilgreining stíga innan Rauðhóla er til þess að vernda svæðið, bæta samgöngutengingar, skýra betur stígakerfi og möguleikum á gönguleiðum. Fyrirkomulag stígaleiða miðar að möguleikum á fjölbreyttum hringleiðum þar sem flestir geti fundið hentuga leið og þannig verði svæðið aðgengilegra og höfði til sem flestra.
Brú yfir Helluvatn endurnýjuð
Gert er ráð fyrir að brú yfir Helluvatn verði endurnýjuð og að þar verði gert ráð fyrir bílaumferð, gangandi og hjólandi og einnig fyrir hestaumferð. Brúin gæti orðið allt að 10‐14 m breið en hægt væri að notast við núverandi brúarstæði og fyllingar.
Bílastæði
Við Heiðmerkurveg er skilgreint eitt bílastæði og við það er aðaláningarstaður Rauðhóla. Á bílastæðinu er gert ráð fyrir um 34 bílastæðum og tveimur stæðum fyrir rútur. Akstur í gegnum bílastæðið er einstefna, frá austri til vesturs. Við bílastæðið er gönguleið að stofnstíg. Öll bílastæði, leiðir að þeim og göngufletir verða klædd gegndræpu yfirborði og tilfallandi efni af svæðinu nýtt í hönnun umhverfis við þau eins og kostur er. Vegna nálægðar við vatnsverndarsvæði skal gera skal ráð fyrir mengunarvörnum.
Samráð
Tillagan var unnin í nánu samstarfi við Umhverfisstofnun og Orkuveitu Reykjavíkur og haldnir hafa verið nokkrir fundir með þeim sem og Hestamannafélaginu Fáki og Náttúrufræðistofnun Íslands. Hægt er að kynna sér helstu samráðsaðila nánar í tillögunni sjálfri.
Auglýsingatímabilið varir frá 4. júní til 16. júlí. Tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir Rauðhóla