Borgarráð hefur samþykkt tillögu borgarstjóra um breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Kostnaðarauki vegna breytinganna er 67,1 milljón króna á ári. Áætlað er að nýju reglurnar taki gildi 1. apríl.
Breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð eru gerðar í þágu barna og fjölskyldna þeirra. Þær byggja að miklu leyti á tillögum starfshóps sem vann að greiningu á sárafátækt í Reykjavík. Ein viðamesta breytingin á reglunum snýr að því að fjárhagsaðstoð til að mæta útgjöldum vegna barna, til dæmis vegna frístundaheimilis, daggæslu eða skólamáltíða, verður nú greidd samhliða fjárhagsaðstoð til framfærslu þegar börn eru á framfæri umsækjanda. Áður þurfti að sækja sérstaklega um þá aðstoð.
Aðrar breytingar snúa meðal annars að frádrætti vegna tekna þeirra sem ljúka endurhæfingu, framfærslu til einstaklinga sem stunda nám á framhaldsskólastigi, skilyrðum fyrir húsbúnaðarstyrk, greiðslu sérfræðiaðstoðar og útfararstyrks og tryggingu vegna húsaleigu.
Mikið samráð var haft við fulltrúa notenda og hagsmunaaðila við breytingarnar, svo sem við Pepp (People experiencing Poverty), EAPN (European Anti Poverty Network), Hugarafl og Hlutverkasetur, auk þátttakenda úr átaksverkefnunum Tinnu og Grettistaki. Ennfremur var leitað til fulltrúa frá mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá gafst notendum, hagsmunaaðilum og öðrum áhugasömum kostur á að skila inn umsögn um drög að breytingum á reglunum í gegnum sérstaka umsagnagátt á vefnum. Tóku breytingarnar nokkrum breytingum í kjölfar þess.
Sem fyrr segir felur breytingin í sér kostnaðarauka við fjárhagsaðstoð að fjárhæð 67,1 milljón króna á ársgrundvelli. Sú upphæð tekur mið af fjölda þeirra sem voru á fjárhagsaðstoð í september 2020.