Innleiðing verkefna sem tengjast orkuskiptum og loftlagsmálum voru til umræðu á vinnustofu í Ráðhúsi Reykjavíkur sem Reykjavíkurborg hélt í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur. Loftlagsváin er stóra áskorun samtímans sem verður ekki leyst nema með nýjum grænum lausnum.
Vinnustofan er hluti af orkuskipta- og loftslagsverkefni sem ber heitið SPARCS, sem stuðlar að samvinnu borga í Evrópu í leit að nýjum og betri lausnum með það fyrir augum að umbreyta borgum í sjálfbær, kolefnishlutlaus vistkerfi sem leiða til bættra lífskjara íbúa. Verkefnið er vettvangur ólíkra aðila og skapar ný tækifæri í þróun og miðlun þekkingar á kolefnisjöfnun borga.
Sjálfkeyrandi skutlur og lifandi samgöngukjarnar
Á vinnustofunni voru ræddar hugmyndir að nýsköpunarverkefnum og aðgerðum. „Við erum skrefinu nær því að velja þau lykilverkefni sem borgin mun tengja inn í SPARCS. Við erum á þessum tímapunkti að kanna fýsileika verkefnanna og möguleika þeirra á innleiðingu hér í borginni. Verkefnin eru mikilvægt innlegg í Græna planið og í umsókn Reykjavíkur um að vera í hópi 100 kolefnishlutlausra borga,“ segir Hulda Hallgrímsdóttir, verkefnisstýra SPARCS.
Hugmyndir sem voru útfærðar á vinnustofunni voru allt frá sjálfkeyrandi skutlum, lifandi samgöngukjörnum, átaksverkefni til að auka vitund um orkunýtni og orkusparnað, útbreiðsla hleðslustöðva fyrir rafbíla, snjallt samgöngusmáforrit og mannvænar innviðabreytingar.
Fjölbreyttur og þverfaglegur hópur sérfræðinga tók þátt í vinnustofunni og sköpuðust líflegar og skemmtilegar umræður. Meðal þátttakenda voru sérfræðingar frá Reykjavíkurborg, Orkuveitu Reykjavíkur, Strætó, Háskóla Íslands, Háskóla Reykjavíkur, fulltrúar íbúasamtaka, sérfræðingar innan grænna fjárfestinga, sjálfbærni og fleiri.
„Orkuveita Reykjavíkur er hluti af SPARCS verkefninu og samstarfsaðili Reykjavíkurborgar. Þátttaka í vinnustofu sem þessari styrkir samstarf og skapar samtal um lausnir til orkuskipta í samgöngum sem er megináhersla Orkuveitunnar í vegferð um vistvæna og kolefnishlutlausa Reykjavík “ segir Inga Dóra Hrólfsdóttir, verkefnisstýra SPARCS fyrir hönd Orkuveitunnar.
Hvað er SPARCS?
Styttingin SPARCS stendur fyrir Sustainable energy Positive & zero cARbon CommunitieS. Verkefnið er evrópskt nýsköpunarverkefni sem hefur fengið úthlutað 20 milljónum evra frá Horizon 2020 í Evrópusambandinu til nýsköpunar í loftslags- og orkumálum. Verkefnið hófst 1. október 2019 og lýkur 30. september 2024. Tvær evrópskar borgir, Espoo í Finnlandi og Leipzig í Þýskalandi gegna hlutverki kyndilborga í verkefninu en hlutverk þeirra er að þróa lausnir til kolefnisjöfnunar og orkuskipta. Fimm evrópskar borgir gegna síðan hlutverki samstarfsborga sem munu sannreyna lausnirnar við aðrar aðstæður þar á meðal í Reykjavík. Lykiláherslur í verkefninu er nýsköpunarnet vistvænna borga (Innovation Catalyst Network) og kolefnisjöfnun borga.
Þátttaka Reykjavíkur í stórum alþjóðlegum verkefnum auðgar stefnur og starfsemi borgarinnar og styður við sjálfbærni í rannsóknum, þróun og nýsköpun í Reykjavík.