Hefjum haustið með vistvænum samgöngum. Hvílum bílinn og nýtum aðra ferðamáta. Reykjavíkurborg, nokkrar stofnanir og skólar hvetja fólk til að nýta sér vistvæna ferðakosti um þessar mundir.
Gott er að hvíla bílinn, bæði fyrir einstaklinga og umhverfið allt. Næstu sex vikur tekur Reykjavíkurborg þátt í sameiginlegu átaki um að skilja bílinn eftir heima á morgnanna og fara með öðrum hætti í skóla eða vinnu.
Leggjumst öll á eitt
Starfsfólk Reykjavíkurborgar er m.ö.o. hvatt til að prófa aðra ferðamáta en bifreiðar. Átakið er á vegum Landspítalans, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Reykjavíkurborgar, Strætó, ÍSÍ, stúdentaráða háskólanna, Vegagerðarinnar og Umhverfisstofnunar. Við munum vekja athygli á kostum þess að auka hlutdeild vistvænna samgangna í höfuðborginni. Græn skref í starfsemi Reykjavíkurborgar taka einnig virkan þátt í átakinu.
Auðvelt er að draga úr eldsneytisnotkun, losun og mengun, létta á umferð, spara pening og ekki síst að stuðla að bættri heilsu með því að nýta reglulega eigin orku til að komast á milli staða. Starfsfólk fyrirtækja og stofnana ætti að kanna hvort boðið sé upp á samgöngusamninga á vinnustaðnum eða greiðslu fyrir að nýta vistvæna samgöngumáta flesta daga vinnuvikunnar.
Ef bíllinn fær t.d. að hvíla sig heima einu sinni í viku dregur eigandi úr notkun hans um 20% á virkum dögunum. Strætó er með góðar upplýsingar um leiðir og tímaáætlanir, bæði í appinu sínu og á heimasíðu.
Kjörið að hjóla til og frá vinnu og skóla
Margir nýta sér hjólið í góða veðrinu. Kannanir sýna að 27% fólks vill helst ferðast með reiðhjóli í vinnu, reiðhjól því skora hátt og henta mörgum mjög vel til og frá vinnu. Það er heldur ekki svo flókið að hjóla að vetri til með því að klæða sig rétt og vera á góðum dekkjum.
Rafhjól og rafskútur eru líka góður ferðamáti. Ekki þarf að minnast á gildi þess að ganga til og frá vinnu, það getur uppfyllt hreyfiþörf dagsins.
Ef til vill er hægt að blanda þessu öllu saman og finna tækifæri næstu vikurnar til að skilja bílinn eftir heima.
Næstu vikurnar ætlar hópurinn sem stendur að vera með þema í hverri viku. Við byrjum á örflæði en það felst í öllum léttum og umhverfisvænum samgöngum. Átakið er í samræmi við stefnur borgarinnar m.a. um lýðheilsu- og loftslagsmál. Starfsfólk og almenningur er hvattur til að nýta sér vistvænar samgöngur núna í haust, nota strætó, hjóla, ganga og hreyfa sig.