Notendur taka beinan þátt í að móta þjónustuna

Velferð

Skjámynd af þátttakendum á fundinum

Mikilvægi þess að móta þjónustu út frá persónulegum þörfum hvers og eins var í forgrunni erinda allra þeirra sem komu fram á velferðarkaffi, opnum fundi velferðarráðs, í morgun. Þar var farið yfir úrræði á vegum velferðarsviðs sem miða að því að veita fólki þjónustu heim, svo það geti lifað sjálfstæðu lífi lengur á eigin heimili. 

Af ýmsum og ólíkum ástæðum kunna einstaklingar að þurfa utanaðkomandi aðstoð til að halda heimili. Í þjónustu sinni leitast velferðarsvið til að koma til móts við þær þarfir. Á velferðarkaffi í morgun var fjallað um tvö sérhæfð teymi sem stuðla að því að gera einstaklingum kleift að lifa sjálfstæðu lífi á eigin heimili. Jafnframt var fjallað um virknimiðstöðina Hlutverkasetrið auk þess að Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, fór vítt og breitt yfir sviðið og sagði frá þeim stuðningi sem veittur er á heimilum fólks í Reykjavík.

Veita ungu fólki fjölbreyttan stuðning 

Liðsaukinn er færanlegt teymi sem veitir ungu fullorðnu fólki stuðning í sinni búsetu, innan sem utan heimilis. Sigmar Þór Ármannsson, forstöðumaður Liðsaukans, lýsti því á fundinum hvernig aðaláhersla teymisins er á sjálfstætt líf, valdeflandi stuðning og þjónandi leiðsögn. Í hópi þeirra sem sækja þjónustu Liðsaukans eru einstaklingar með væg þroskafrávik og skyldar raskanir, geðrænar áskoranir, einstaklingar með framheilaskaða og aðrir sem samsama sig ekki öðrum úrræðum sem í boði eru. Sigmar sagði markmiðið þjónustunnar við þá alla það sama: Að þeir fái sömu tækifæri til að dafna í lífinu og annað fólk. Ólíkar leiðir þurfi að fara að því markmiði og því sé þjónustan fjölbreytt og sniðin að því hvað einstaklingur sjálfur vill og þarf. Þannig sé hann þátttakandi í því að ákveða hvernig þjónustan fari fram. „Þjónustunotendur eru í raun hluti af teyminu sem kemur að því að sníða þjónustuna,“ sagði Sigmar.

Markmiðið að fólk geti tekið á móti gestum

Með félagslegri heimaþjónustu starfar viðbragðsteymi sem stígur inn í aðstæður þegar fólk hefur misst tök á heimilishaldi. Í teyminu er deildarstjóri, sálfræðingur og fíkniráðgjafi sem vinna í nánu samstarfi við allar þjónustumiðstöðvar í borginni, heimaþjónustu og heimahjúkrun. Líney Úlfarsdóttir, sálfræðingur í Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis, sagði frá því almenna hlutverki heimaþjónustunnar, að styðja við heimilishald og vinna gegn félagslegri einangrun. Stundum hafi einstaklingar hins vegar misst fótanna í heimilishaldi, oft vegna andlegra veikinda, neyslu eða annarra tilfallandi ástæðna, og þá komi til kasta viðbragðsteymisins. Oft taki þó langan tíma að byggja upp traust og fá leyfi til að koma inn á heimilin. „Við festum okkur ekki inni í ramma þjónustunnar, heldur verðum stöðugt að geta upphugsað nýjar leiðir til að vinna okkur inn traust. Markmiðið er að koma málum þannig fyrir á heimilinu að almenna heimaþjónustan geti hafið þarf störf,“ útskýrði Líney.  

Verkefni teymisins er í raun að taka til hendinni á heimilinu: Henda, þrífa og flokka hluti, jafnvel að ditta að og setja upp myndrænar leiðbeiningar svo íbúa reynist auðveldara að halda í horfinu. Einnig að aðstoða fólk við að kaupa sér nauðsynlegan húsbúnað, föt, rúmföt og þar fram eftir götunum. Takmarkið sé að fólk geti tekið á móti gestum á heimili sitt. 

Heimili utan heimilis í Hlutverkasetrinu 

Þær Elín Ebba Ásmundsdóttir, framkvæmdastjóri Hlutverkasetursins, og Ágústa Ísleifsdóttir, sem sótt hefur þjónustu setursins, sögðu frá starfinu þar. Hlutverkasetur er opin virknimiðstöð sem meðal annars er rekin með þjónustusamningi við Reykjavíkurborg. Þær Elín Ebba og Ágústa lögðu áherslu á mikilvægi þess að eiga sér vísan stað til að sækja á daginn, því aðeins þannig geti heimilið verið griðarstaður. „Heimili verður dýrmætara ef maður kemur aftur heim, heldur en ef maður er fastur inni á heimilinu,“ sagði Elín Ebba og Ágústa tók undir það. Hún hefur nýtt sér þjónustu Hlutverkasetursins allt frá árinu 2009. „Ég var alveg föst heima, því var svo lasin, ein og félagsfælin. Þegar ég fór að skoða Hlutverkasetur í fyrsta sinn ákvað ég að mæta aldrei aftur. En þegar ég svo vaknaði daginn eftir, eftir svefnlausa nótt, hugsaði ég með mér: „Þetta getur ekki veirð verra en að vera hér heima.“

Nokkrum mánuðum síðar var hún iðulega fyrst til að mæta í Hlutverkasetrið og síðust til að kveðja á daginn. Síðan hefur hún náð miklum bata, sem hún þakkar að miklu leyti setrinu. „Eitt sem var svo gott að enginn var að atast í mér, hér fékk ég að vera hér í ró og næði.“

4600 manns fá heimahjúkrun eða heimaþjónustu

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, fór yfir heildarmynd þess stuðnings sem fullorðið fólk getur fengið inn á heimili sín frá velferðarsviði. Hún sagði frá þjónustu í fjölbreyttum íbúðakjörnum sem velferðarsvið rekur en 365 manns búa í þjónustuíbúðum á vegum velferðarsviðs og fá þar stuðning og 479 fatlaðir einstaklingar fá stuðning til að búa í eigin íbúð eða í íbúðakjarna á vegum velferðarsviðs. Þá sagði hún sérhæfðum teymum á borð við VoR-teymið, SELMU og endurhæfingu í heimahúsi en þjónusta þeirra allra hefur reynst vel og fer vaxandi. Í máli Regínu kom jafnframt fram að rúmlega 4600 einstaklingar fengu ýmist heimahjúkrun eða heimaþjónustu á síðasta ári. 

Fundarstjóri á velferðarkaffi var Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs. Hér er að horfa á streymið í heild sinni: