Þeir eru ólíkir í útliti en það er auðvelt að sjá þá báða fyrir sér í ullarskyrtu og leðurskóm, með skikkju og jafnvel forláta hjálm á höfði. Þeir heita Jón Páll Björnsson og Sigurlaugur Ingólfsson og eru mennirnir á bak við myndbandshlaðvarpið Villtir víkingar og vandræðagripir.
„Borgarsögusafnið var lokað og við vorum að reyna að finna aðferðir til að koma efni til fólks, án þess að þurfa að fá fólkið til okkar. Við vitum báðir, eða þykjumst vita, alveg afskaplega mikið um viðfangsefnin okkar. Markmiðið er ekki að þetta sé kennsla eða fyrirlestrar eða neitt slíkt, þetta er bara spjall á milli tveggja nörda sem hafa vit á einhverju og geta talað um það,“ segir Jón Páll og Silli, eins og Sigurlaugur er kallaður, bætir við að ekki sé stuðst við handrit. „Við vitum nokkurn veginn hvað við ætlum að tala um en þetta má ekki vera of æft, þá verður þetta ekki nógu skemmtilegt.“
Þeir félagar eru báðir sagnfræðingar og starfa hjá Borgarsögusafni Reykjavíkur, sem Reykjavíkurborg rekur og er næststærsta safn landsins á eftir Þjóðminjasafni Íslands. Silli vinnur á Árbæjarsafni en Jón Páll aðallega á Landnámssýningunni í Aðalstræti. Aðrir sýningarstaðir safnsins eru Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Sjóminjasafnið og Viðey auk þess sem starfsemi safnsins er sýnileg með öðrum hætti, t.d. með sögugöngum, útgáfu og menningarmerkingum í borgarlandinu.
Erfitt að vera með bíó í útvarpi
Hugmyndin að þáttunum var eldri en þegar COVID-lokanir skullu á og Borgarsögusafn eignaðist góðar upptökugræjur, sáu þeir sér leik á borði.
„Við vildum koma efni frá okkur en svo var þetta kannski líka til að hafa eitthvað skemmtilegt að gera í vinnunni á meðan allt var lokað,“ segir Silli og glottir. „En svo héldum við bara áfram með þetta.“
„Ég hélt í byrjun að þetta yrðu bara hljóðupptökur en svo var innifalin í græjunum þessi fína myndavél sem bætti heilmiklu við,“ segir Jón Páll.
„Já, það er erfitt að vera með bíóþátt í útvarpi,“ segir Silli og þeir hlæja.
„Maður þarf að útskýra svo margt og sýna fólki alls konar, enda eru hlaðvörp sem fjalla um eitthvað sjónrænt oft mjög löng,“ segir Jón.
Áhugi þeirra á viðfangsefninu leynir sér ekki enda urðu þættirnir aðeins lengri en til stóð.
„Hálftími var markmiðið en við vorum oftast 40 mínútur,“ segir Silli. „Samt klippum við þetta aðeins til. Tökum út mistökin hans Jóns Páls og svona…“
„Já, ég er duglegur að missa hluti á gólfið.“
Það er stutt í húmorinn hjá þeim félögum og skilar léttleikinn sér vel í þættina. Fimm þættir eru þegar aðgengilegir á Youtube og á Facebook-síðu Landnámssýningarinnar og ætla þeir að halda ótrauðir áfram, ásamt upptökustjóranum Ágústu Rós Árnadóttur. Stefnt er á að taka næsta þátt upp mjög fljótlega svo eldheitir aðdáendur ættu ekki að þurfa að bíða lengi. Von er á þáttum um það bil mánaðarlega og mögulega líta einhverjir gestir við í þeim.
Hvað ef víkingarnir hefðu fundið Tenerife?
Í þáttunum er fjallað um landnámstímabilið, víkingaöld, á árunum 700 til 1100. Unnið er með þemu og hafa þeir Jón Páll og Silli til dæmis fjallað um tóvinnu, leiki, lýsingu og verkfæri fólks sem lifði þessa tíma.
„Við höfum farið vítt og breitt en eigum nóg eftir. Þetta er langt tímabil en við ætlum jafnvel líka að ræða um hlutina með tilvísanir til dagsins í dag og þess sem maður sér í bíómyndum og sjónvarpi,“ segir Jón Páll. „Þá getum við tuðað um hvað þetta er allt vitlaust til dæmis í bíómyndunum.“
Í þessari umfjöllun hyggjast þeir ekki síst horfa til þáttanna Vikings sem notið hafa vinsælda. En vilja þeir ljóstra upp um önnur væntanleg umfjöllunarefni
„Já, við ætlum að tala um ferðalög; sjóferðir, báta og skip,“ segir Jón Páll.
„Svo eigum við eftir að tala um vopn,“ segir Silli.
„Já, það eru allir að bíða eftir því!“ bætir Jón Páll við.
Þá stendur til að taka upp einn þátt inni í rústinni af skálabyggingunni, sem skoða má á Landnámssýningunni.
„Við ætlum að tala um fornleifar víkingaaldar,“ segir Jón Páll. „Hvað menn finna og hvernig og svo hvaða vísindalegu aðferðir eru notaðar til að fylla upp í eyðurnar sem myndast þegar fornminjar eru grafnar upp.“
Nafn þáttarins, Villtir víkingar og vandræðagripir, vekur athygli.
„Við þekkjum vel úr okkar starfsgrein að allir titlar þurfa helst að vera stuðlaðir. Það þykir ægilega fínt,“ segir Jón Páll kankvís.
„Svo var hluti af hugmyndinni á bakvið þáttinn að hafa alltaf einhvern einn hlut í forgrunni sem væri þá þessi vandræðagripur sem umræðan myndi spinnast í kringum,“ segir Silli, sem reynist raunar sjálfur vera vandræðagripurinn í einum þáttanna. „Við köllum okkur villta víkinga og setjum okkur ekkert á of háan hest. Við erum ekki prófessorar í þessu svo fólk kannski gefur okkur aðeins meiri slaka ef við gerum einhverja vitleysu.“
„Svo vísar þetta til víkinga sem villtust,“ segir Jón.
„Þeir villtust til dæmis til Íslands,“ bætir Silli við. „…þeir hefðu betur fundið Tenerife eða eitthvað.“
Snældusnúður með sál
Okkur þyrstir í að vita meira um safnið sjálft og Jón Páll verður fyrir svörum.
„Landnámssýningin er…“
„Ofmetin!“ grípur Silli inn í, sposkur á svip og viðurkennir aðspurður að kannski sé smá rígur til staðar á milli safnanna. Jón Páll heldur áfram.
„Landnámssýningin byggir á fornleifum frá landnámstímanum. Þar er heil rúst af skálabyggingu á sínum upprunalega stað og fullt af smærri gripum. Hugsunin á bak við þetta er að kynna fornleifafræðina fyrir gestum en líka daglegt líf fólksins sem bjó í Reykjavík á níundu og tíundu öld.“
Það er skemmtilegt að rölta um sýninguna, leyfa huganum að ferðast með sig langt aftur í tímann og sjá fyrir sér daglegt líf forfeðra okkar. Spjallið við Jón Pál og Silla fer fram í fræðslurými safnsins, þar sem þættirnir eru einmitt teknir upp og talið berst að nokkuð beittri exi á borðinu sem ungur drengur lék sér með og merkti sér í kringum árið 1940. Leikföng hafa víst aðeins breyst frá þessum tíma. Uppáhaldsmunur Silla á safninu er raunar exi sem svipar til þessarar.
„Mér finnst hún svo flott. Það er ekki bara axarhöfuð heldur smá bútur af skaftinu líka,“ segir hann.
Í uppáhaldi hjá Jóni Páli er munur sem kallast hinu skemmtilega nafni snældusnúður.
„Hann er notaður á prik, snældu og þetta er notað til að spinna þráð úr ull. Hér á safninu er snældusnúður sem er merktur með nafninu Vilborg. Þessi munur er ekkert einsdæmi, það hafa fundist snældusnúðar áður, en það er merkilegt að nafn tengist svona grip. Oft finnast til dæmis ríkulegar grafir með alls konar dýrgripum en aldrei nein nöfn, maður veit aldrei hvað viðkomandi einstaklingar hétu. Svo þegar nafn tengist svona einum ákveðnum grip þá verður hann dálítið sérstakur. Það er gaman að hafa Vilborgu hér nálæga“.
Hversdagsleikinn merkilegastur
Flestir gripanna á Landnámssýningunni eiga sameiginlegt að vera mjög hversdagslegir. Þarna finnur maður hvorki sverð né kórónur.
„Þetta eru hlutir eins og naglar og snældusnúðar. Það hvað þeir eru hversdagslegir gerir þá einmitt svo merkilega því þetta segir manni miklu meira en vopnin. Þetta segir okkur hvernig fólkið lifði og hvað það gerði frá degi til dags,“ segir Jón Páll.
„Þess vegna tengir fólk við þessa sýningu,“ segir Silli. „Hér er varpað upp mynd af lífi fólks fyrir þúsund árum svo hægt sé að setja sig í spor þess.“
„Okkur er hundsama hvort þetta fólk fór í utanlandsreisur einu sinni eða tvisvar á ævinni til að lemja á einhverjum munkum, það var ekki daglega lífið,“ bætir Jón Páll við.
„Nei, þetta er svona COVID-sýning; um fólk sem var bara heima að höggva í eldinn og vera til.“
Margir gripanna á sýningunni koma úr næsta nágrenni hennar.
„Flestir eru frá þessu kvosarsvæði; Aðalstræti, Suðurgötu og kannski aðeins upp í Túngötu. Á þessu litla svæði við norðurendann á Tjörninni hafa elstu minjarnar á Reykjavíkursvæðinu fundist svo hér hófst væntanlega landnámið, á þessum pínulitla bletti. En þetta varð samt dálítið samfélag, hér bjuggu kannski 70 til 80 manns,“ segir Jón Páll.
Við ræðum hvort hlaðvörp og rafræn framsetning sé framtíðin í safnastarfi og miðlun menningarefnis, en COVID-19 hraðaði mjög þróun í þá átt.
„Ég hlusta mikið á hlaðvörp og það geta allir fundið eitthvað sem þeir hafa áhuga á. Ég held að þetta sé orðið dálítið mikilvægt,“ segir Jón Páll. „Borgarsögusafn á alls konar efni sem hefur verið tekið upp og það stendur til að safna því saman og gera aðgengilegt á einum stað. Fólk getur þá horft á efnið og notað á ýmsa vegu.“
„Mér skilst að við höfum til dæmis verið notaðir í kennslustund í einum grunnskólanna, það er fínt að fólk hafi gagn af þessu,“ bætir Silli við.
Fóru með safnið til fólksins
COVID-19 hafði að sjálfsögðu mikil áhrif á safnastarfið.
„Við þurftum að loka söfnunum og taka út ýmsa fræðslu og móttökur til dæmis skólahópa, sem annars eru stór hluti af starfsemi safnsins. Fræðsludeildin fór því að taka upp efni fyrir skólana og það var gert mikið úr því til dæmis síðustu jól, enda eru jólaheimsóknir á Árbæjarsafn fastur liður hjá mörgum skólum. Þegar það var ekki hægt fórum við með safnið til þeirra,“ segir Jón Páll. „Þetta hefur haft mikil áhrif…. og svo er hundleiðinlegt að vera með leiðsögn þegar maður þarf að hafa grímu!“
Safnastarfið hefur nú aftur náð sér vel á strik og eru allir velkomnir að njóta þess sem fjölbreyttar sýningarnar hafa upp á að bjóða. Næsti stóri viðburður Borgarsögusafns er hrekkjavakan, sem verður fagnað á Árbæjarsafni 31. október. Þeir félagar segja suma hafa verið ósátta þar sem um væri að ræða erlendan sið, en að við nánari athugun hafi komið í ljós að hann eigi sér mun dýpri rætur, m.a. á Íslandi til forna.
„Það er mikið í þetta lagt,“ segir Jón Páll. „Við ætlum að endurtaka það sem við gerðum árið 2019…“
„Já, hræða fólk!“ skýtur Silli inn í.
Þótt enn séu takmarkanir við lýði vegna COVID-19 hér á landi, má gleðjast yfir opnun safna og hvetja borgarbúa og aðra til að njóta alls þess sem sýningarnar hafa upp á að bjóða. Safnastarfsins má líka njóta heima við, til dæmis með því að horfa á Villta víkinga og vandræðagripi. Góða skemmtun!
#fólkiðokkaríborginni #Fólkiðokkar #Fólkiðíborginni #hittumstáworkplace