„Það var himnasending að fá þessa bólusetningu,“ segir Erla Elín Hansdóttir, íbúi á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum. Hún er nú komin með fulla vörn gegn veirunni og sér fram á bjartari tíma með auknum samskiptum við vini og ættingja.
Nær allir íbúar hjúkrunarheimilisins Droplaugarstaða hafa fengið báðar sprauturnar gegn Covid-19 og því komnir með fulla vörn gegn veirunni. Af þeirri ástæðu hefur nú takmörkunum verið létt verulega af hjúkrunarheimilinu, íbúum, starfsfólki og aðstandendum til mikils léttis. Auk þess að rýmkað hefur verið fyrir heimsóknir er nú klúbbaðstarf, boccia og skemmtanir hafið að nýju á Droplaugarstöðum. Enn er þó hólfaskipting í húsinu og þess gætt að starsfólk blandist ekki á milli hæða. Enn vinnur þó starfsfólk í hólfum og fjöldatakmarkanir eru í gildi í samræmi við almennar reglur.
Nú mega aðstandendur koma í heimsókn á bilinu 14 og 18 á daginn. Eins og annars staðar í samfélaginu þurfa þeir hins vegar að gæta hreinlætis, spritta sig við komu á heimilið og nota grímu á meðan gengið er í gegnum húsið. Þá eru þeir beðnir að dvelja ekki í sameiginlegum rýmum þó þeim sé velkomið að fara út í garð með fólkinu sínu – eða út úr húsi ef þeim sýnist svo. Áður en íbúar voru bólusettir og á meðan faraldurinn geisaði sem hæst var mælst gegn því að íbúar færu í heimsókn til ættingja sinna. Því er þetta stór breyting og mikill léttir. „Þetta er búið að vera voðalega tilbreytingarlítið þó að starfsfólkið hafi verið afar indælt og hugsi vel um okkur. Nú mega fleiri vinir mínir koma í heimsókn og það er mikill munur, því það skapar tilbreytingu í lífinu að hitta fólk,“ segir Erla Elín Hansdóttir, íbúi á Droplaugarstöðum, og brosir breitt. Við hlið hennar stendur fallegur blómvöndur sem vinkona hennar færði henni í tilefni að því að nú eru bjartari tímar framundan, með auknum samverustundum. „Þetta hefur verið ansi íþyngjandi tími. Ég hef verið bundin við hjólastól í tvö ár. Við sem erum í þeirri stöðu höfum jafnvel verið í meiri einangrun en aðrir íbúar, því þeir geta þó gengið hér fram og hitt aðra. Þetta hefur því í raun og veru verið mjög einangrandi tímabil. Sjónvarpið hefur helst létt mér stundirnar. Ég get skipt yfir á þýsku stöðvarnar ef það er ekkert í sjónvarpi,“ segir Erla Elín, sem býr að því að vera mikil tungumálakona, en hún var tungumálakennari við Kvennaskólann í Reykjavík í áratugi. „Það var eins og himnasending að fá þessa bólusetningu. Hún gerði það líka að verkum að nú þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því að smita frá mér og heldur ekki að vinir mínir sem koma í heimsókn smiti mig. Það er mikill munur.“