Mikil uppbygging íbúða í Reykjavík

Umhverfi Stjórnsýsla

""

Samantekt um íbúðauppbyggingu í Reykjavík á öðrum ársfjórðungi sýnir áfram kraftmikla stöðu uppbyggingar. Á fyrri helmingi ársins komu 1.422 íbúðir inn á húsnæðismarkaðinn og er það vel yfir væntingum fyrir allt árið, því markmið Græna plansins gerir ráð fyrir 1.000 íbúðum á ári.

Þetta kemur fram í yfirliti annars ársfjórðungs húsnæðisáætlunar Reykjavíkurborgar sem var kynnt í borgarráði í liðinni viku. Auk þess að halda utan um upplýsingar um tilbúið íbúðarhúsnæði eru teknar saman upplýsingar um væntanlegar íbúðir og framtíðarþróun byggðar. Skoða samantekt: Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar – Yfirlit annars ársfjórðungs 2021.

Í húsnæðisáætluninni er haldið utan um stöðu uppbyggingarverkefna eftir skipulagsstöðu og framkvæmdastigi. Horft er til þess hvar næstu 25.000 íbúðir munu rísa. Til að setja áætlunina í samhengi við núverandi byggð þá eru 52 þús. íbúðir eða íbúðaeiningar í borginni í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti byggingarfulltrúa voru á ársfjórðungnum samþykkt áform um uppbyggingu á 485 íbúðum og framkvæmdir hófust við byggingu 276 íbúða.

Upplýsingar frá skipulagi Reykjavíkurborgar gefa einnig góð fyrirheit um uppbyggingu en skipulag var auglýst til kynningar á reitum fyrir 5.175 íbúðir, auk þess sem skipulag var samþykkt fyrir 1.108 íbúðir.

Til lengri tíma er einnig bjart yfir húsnæðismálunum því að á árinu hafa verið gerðir samningar á fjölda reita sem byggja má hátt í tvö þúsund íbúðir.

Byggingarheimildir hjá einkaaðilum

Gildandi byggingarheimildir eru fyrir 3.169 íbúðir á lóðum með samþykktu deiliskipulagi. Flestar þeirra, 1.835 eða 58% eru í höndum einkaaðila sem ætla að byggja fyrir almennan markað. Hraði uppbyggingar er þannig að miklu leyti í þeirra höndum. Reykjavíkurborg ræður yfir byggingarrétti 727 íbúða sem ætlaðar eru fyrir almennan markað og eru flestar þeirra fyrirhugaðar í Bryggjuhverfi þar sem unnið að því að gera lóðir byggingarhæfar. Húsnæðisfélögum hefur verið úthlutað lóðum fyrir 540 íbúðir og þar er stærsta verkefnið á vegum Háskólans í Reykjavík við Nauthólsveg. Loks eru í samþykktu deiliskipulagi 37 íbúðir sem Reykjavíkurborg á eftir að úthluta til húsnæðisfélaga.

Tengt efni: