Kraftmikil íbúðauppbygging í Reykjavík

Atvinnumál Skipulagsmál

""

Samantekt um íbúðauppbyggingu og áform í Reykjavík sýnir kraftmikla stöðu. Í Reykjavík eru núna 2.782 íbúðir í byggingu og er þar er miðað við útgefin byggingarleyfi. Þá voru á fyrsta ársfjórðungi samþykkt byggingaráform fyrir 367 íbúðir, sem er hátt hlutfall af þeim þúsund íbúðum sem miðað er við í ár. Lóðaúthlutun er einnig í samræmi við fyrirætlanir því á þessum fyrsta ársfjórðungi úthlutaði borgin tólf lóðum fyrir 242 íbúðir.

Þessar upplýsingar er að finna í samantekt sem gefa á út ársfjórðungslega, en sú fyrsta var kynnt í borgarráði nýverið - sjá Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar: Yfirlit fyrsta ársfjórðungs 2021. Þessi reglulega útgáfa bætir verulega upplýsingamiðlun um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Hin síðari ár hefur árlega verið haldinn kynningarfundur borgarstjóra um uppbyggingu íbúða, auk þess sem sú samantekt hefur verið gefin út sem kynningarrit. Hvort tveggja hefur mælst vel fyrir og er aðgengilegt á vef Reykjavíkurborgar https://reykjavik.is/husnaedi/kynningarfundur-2021.

Mikil íbúafjölgun fimmta árið í röð

Aukin þörf fyrir húsnæði vex í takt við fjölgun íbúa, en Íbúum í Reykjavík fjölgaði um 528 á þessum fyrsta ársfjórðungi og virðist því stefna í að fjölgun íbúa verði yfir tvö þúsund fimmta árið í röð. Fjöldi íbúa mun líklega fara yfir 135.000 í haust.

Með ákvörðunum í samræmi við húsnæðisáætlun sína hefur borgin unnið að því að mæta aukinni þörf fyrir húsnæði og má hér nefna verkefni annars vegar um hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur; og hins vegar með úthlutun lóða til húsnæðisfélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. 

25 þúsund íbúðir í pípunum

Fjöldi íbúða í Reykjavík í dag er 52 þúsund og hér er miðað við „íbúðaeiningar“, en það geta verið einbýlishús, blokkaríbúð eða stúdentaíbúð.  Eftirfylgni við húsnæðisáætlun Reykjavíkur felst meðal annars í að fylgjast með hvað er í pípunum og það er töluvert.  Unnið er með fjóra flokka en samtals eru það 25 þúsund íbúðir:

  • Byggingarsvæði á framkvæmdastigi – Í Reykjavík eru núna 2.782 íbúðir í byggingu.
  • Samþykkt deiliskipulag –  Gildandi deiluskipulagsheimildir eru fyrir 4.670 íbúðum.
  • Svæði í skipulagsferli – Unnið er með 8.408 íbúðir á skipulagssvæðum.
  • Þróunarsvæði – Áætlunarvinna gerir ráð fyrir 8.656 íbúðum.

Í samantektinni Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar: Yfirlit fyrsta ársfjórðungs 2021  eru tilgreindir allir þessir staðir sem teknir eru inn í talninguna. Tölum fyrir almennar íbúðir annars vegar og húsnæðisfélög hins vegar er haldið aðskildum vegna þeirrar áherslu sem lögð hefur verið á samstarf við húsnæðisfélög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Hér vegur þyngst samstarf við Bjarg íbúðafélag, sem er með sex verkefni í byggingu.  Þá auglýsti Reykjavíkurborg nýverið eftir áhuga frá húsnæðisfélögum. Skoða auglýsingu: Íbúðauppbygging: Tækifæri fyrir húsnæðisfélög.

Hvers vegna eru mismunandi tölur um fjölda íbúða?

Reykjavíkurborg miðar sínar talningar við útgefin byggingarleyfi og fjölgaði þeim um 367 frá því í janúar og eru þau nú 2.782 íbúðir.  Samtök iðnaðarins telja einnig fjölda íbúða í byggingu og þau gefa upp töluna 2.392 íbúðir í byggingu. Munurinn liggur í því að SÍ telja íbúð ekki í byggingu fyrr en sökkull er kominn, en Reykjavíkurborg telur útgefin byggingarleyfi.

SI ber saman uppbyggingu íbúðarhúsnæðis milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu tilgreinir þar 2.025 íbúðir í Reykjavík, en setur 355 námsmannaíbúðir og 12 hjúkrunaríbúðir í sértöflu. Í ársfjórðungssamantekt Reykjavíkurborgar eru þessar tölur settar inn á súlurit til að sýna heildarmyndina og dregur saman:  „Það eru því 900 fleiri íbúðir í byggingu í Reykjavík í dag en öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu samtals.“

Þúsund íbúðir á ári   

Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir þúsund íbúðum á ári og heldur atvinnuþróunarteymi á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara utan um eftirfylgni við þá áætlun. Óli Örn Eiríksson teymisstjóri segir að uppbyggingin sé í takt við þessa sýn. „Út frá áætlunum uppbyggingaraðila verða nær 250 íbúðir fullkláraðar á hverjum ársfjórðungi næstu sjö ársfjórðunga sem er í takt við áætlanir borgarinnar,“ segir Óli Örn.