Lýðheilsustefna Reykjavíkur til 2030: Heilsuborgin Reykjavík: „Borgin sem ég vil búa í“ var samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur þann 5. október síðastliðinn.
Kjarninn í stefnu Reykjavíkur á sviði lýðheilsu er að fjölga æviárum íbúa þar sem fólk býr við góða heilsu og vellíðan. Markmið hennar er að skapa umhverfi og aðstæður sem auka jöfnuð, heilsu og hamingju allra borgarbúa.
Framtíðarsýn stefnunnar er að Reykjavík sé heilsueflandi, sjálfbært og fjölskrúðugt borgarsamfélag sem stuðlar að öryggi, jöfnuði, virkri þátttöku og vellíðan allra.
Leiðarljós í starfsemi Reykjavíkur á sviði lýðheilsu er að áherslur stefnunnar séu samofnar inn í alla starfsemi og stefnumörkun Reykjavíkur, starfið byggi á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma og valdi ekki skaða.
Meginmarkmið stefnunnar eru þrjú:
- Bætt heilsa og vellíðan á öllum æviskeiðum,
- Jöfnuður til heilsu og vellíðanar - engin skilin eftir
- Heilsa og vellíðan er vegvísir í allri starfsemi Reykjavíkurborgar.
Bætt lýðheilsa í Reykjavík hefur verið sérstakt forgangsmál borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar, en hann segir í ávarpi með stefnunni að „Lýðheilsa og lífsgæði eru lykiláherslur í framtíðarsýn og áherslum borgarinnar á öllum sviðum. Það þýðir að Reykjavík á að vera sannkölluð heilsuborg, hvort sem litið er til andlega, líkamlega eða félagslega.“
Lýðheilsustefna Reykjavíkur er ein af meginstefnum borgarinnar og samofin öðrum stefnum hennar þar sem nær öll starfsemi borgarinnar hefur með beinum eða óbeinum hætti áhrif á heilsu og líðan borgarbúa. Lýðheilsustefnan styður m.a. við markmið Græna plansins sem er sóknaráætlun Reykjavíkurborgar til 2030 í því augnamiði að borgin verði efnahagslega, umhverfislega og félagslega sjálfbær.
Vinna við stefnuna stóð yfir veturinn 2020-2021 í samvinnu við borgarbúa, Embætti Landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Að loknu samráðsferli sumarið 2021 var stefnan samþykkt í borgarstjórn.
Reykjavík ein af lýðheilsuborgum Evrópu
Reykjavíkurborg fékk aðild að lýðheilsuborgarsamtökum Evrópu sl. vor en það eru samtök á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (European Healthy Cities Network). Aðild að samtökunum felur í sér skuldbindingu borgarinnar til að vinna að ýmsum verkefnum tengdum lýðheilsu í Reykjavík.