Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn er kominn í jólabúning og dýrin í garðinum komin í jólaskap.
Jólaljós hafa verið sett upp um allan Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og ævintýri líkast að ganga þar um. Hægt verður að kaupa heita súpu, hlýtt kakó og smákökur og svo rölta um og dást að ljósadýrðinni og komast í jólaskap. Útigrillin verða opin og er tilvalið að grilla pylsur eða sykurpúða þegar veður er gott, bara muna að klæða sig vel. Öllum er svo boðið í hringekjuna á kvöldopnunum í desember.
Hefðbundinn opnunartími er alla daga frá klukkan 10 til 17. Frá 2. desember til jóla verður frítt í Ljósadalinn í Fjölskyldugarðinum frá klukkan 16 – 21, frá fimmtudegi til sunnudags. Strax á leiðinni niður að Fjölskyldugarðinum tekur ljósadýrðin á móti gestum því stígurinn frá bílastæðunum niður að hliði garðsins er ljósum prýddur. Kannski verður jólakötturinn á vegi gesta en hann verður kominn á stjá og fylgist vel með umferðinni um garðinn. Aðventan í Ljósadalnum býður upp á eitthvað fyrir alla fjölskylduna og í fallegu umhverfi geta gestir átt skemmtilegan dag og komist í jólaskap í ljósadýrðinni.
„Ljósadalurinn er griðastaður fyrir fólk til að heimsækja á aðventunni, slappa af og njóta ljósa og tónlistar,“ segir Ingi Thor Jónsson verkefnastjóri viðburða.
Við hvetjum öll til að taka myndir af stemningunni og birta á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #ljosadalur21. Starfsfólk garðsins velur þrjár athyglisverðustu myndirnar eftir jól og myndasmiðirnir fá að launum árskort í garðinn.