Listrænt ákall til náttúrunnar á Arctic Circle- ráðstefnunni

Skóli og frístund

""

LÁN-verkefnið er með skemmtilega sýningu á fjölsóttri alþjóðlegri ráðstefnu sem nú stendur yfir í Hörpu og sýnir þar verk sem unnin voru af reykvískum leikskólabörnum og ungmennum.

LÁN - verkefnið miðar að því að veita börnum tækifæri til að þróa eigin hugmyndir um náttúruna og samfélagið með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni. Verkefnið er þróað út frá menntastefnu Reykjavíkur, Látum draumana rætast, og markmiðum um skólastarf með þverfaglegum áherslum þar sem vísindi og listir mætast. Skemmtileg sýning var sett upp í vor í Listasafni Reykjavíkur með afrakstri af þessu verkefni þar sem leikskólabörn og grunnskólanemendur sýndu margs konar listaverk unnin úr endurvinnanlegum efnivið og innblásin af umhverfis- og náttúruvernd.

Ásthildur Jónsdóttir, verkefnisstjóri með LÁN, segir einstaklega gaman að fá að kynna afrakstur af þessu metnaðarfulla verkefni fyrir erlendum fulltrúum á þessari stóru ráðstefnu um málefni norðurslóða þar sem sjálfbærni og aðgerðir í loftslagsmálum eru í brennidepli.