Samningur um safn listmálarans Nínu Tryggvadóttur verður undirritaður í sumar milli Reykjavíkurborgar og dóttur listakonunnar, Unu Dóru Copley. Borgarráð veitti í gær borgarstjóra heimild til þess að ganga frá samningnum fyrir hönd borgarinnar. Safn Nínu Tryggvadóttur verður fyrsta myndlistarsafn Reykjavíkurborgar kennt við og tileinkað íslenskri listakonu.
Samningurinn er í samræmi við sameiginlega viljayfirlýsingu aðila frá 17. maí, 2018. Síðan þá hefur verið unnið að samningnum, skráningu safneignar, stofnskrá safnsins, erfðamálum og fleiru. Safnið verður í austurhluta Hafnarhússins í Reykjavík en í vesturhlið þess er nú Listasafn Reykjavíkur. Þar með verður allt Hafnarhúsið lagt undir listastarfsemi.
Í samningnum er kveðið á um að Una Dóra Copley einkadóttir Nínu gefi Reykvíkingum vel á annað þúsund listaverk eftir móður sína sem endurspegla allan feril listakonunnar. Meðal annars málverk, teikningar, glerverk og vatnslitamyndir. Auk þess gefur Una Dóra Reykvíkingum fasteignir á Manhattan og í Reykjavík eftir sinn dag sem og aðrar listaverkaeignir, bókasafn og fleiri muni.
Borgin fjármagnar á móti rekstur safnsins samkvæmt fjárhags- og starfsáætlun hvers árs, og skuldbindur sig til að varðveita safneignina og halda úti sýningum sem byggja á ferli Nínu Tryggvadóttur og á öðrum verkum sem kveikja áhuga á abstrakt list. Eftir undirritun samningsins er miðað við að Reykjavíkurborg kaupi austurhlið Hafnarhússins af Faxaflóahöfnum. Í framhaldinu er stefnt að samkeppni um hönnun þess hluta hússins.
Nína Tryggvadóttir (1913 til 1968) var fyrst og fremst þekkt sem listmálari en samdi einnig og myndskreytti bækur fyrir börn. Hún fæddist 16. mars, 1913, á Seyðisfirði og naut á sínum yngri árum tilsagnar Ásgríms Jónssonar í teikningum. Meðfram námi við Kvennaskólann í Reykjavík stundaði hún jafnframt listnám í skóla Finns Jónssonar og Jóhanns Briem. Þaðan hélt hún utan til náms til að læra listmálun við Det Kongelige Akademi for de Skønne Kunster í Kaupmannahöfn og bjó síðar í París, London og lengst af í New York. Hún hélt þó ávallt nánum tengslum við Ísland og hélt fjölmargar einkasýningar hér heima sem og erlendis. Hún var virkur félagi í hreyfingu abstrakt-expressjónista í New York og má finna listaverk hennar í söfnum og í einkaeign víða um heim.
Una Dóra Copley: „Ég er glöð og mjög hamingjusöm yfir því að listaverk Nínu sem ná yfir allan hennar feril verði til sýnis í Reykjavík, þar sem að þau eiga heima. Þannig verða þau aðgengileg hinum dásamlegu Íslendingum á öllum aldri næstu ár og áratugi“.
Dagur B. Eggertsson: „Þetta eru mikil tímamót í menningarlífi borgarinnar. Þessi höfðinglega gjöf Unu Dóru Copley á verkum Nínu Tryggvadóttur, móður sinnar, er gríðarlega rausnarleg og þeir fjármunir sem fylgja í formi fasteigna gera borginni kleift að sækja fram á sviði myndlistar. Safn Nínu Tryggvadóttur verður kærkomin viðbót í flóru safna borgarinnar og mun halda nafni hennar og list á lofti einsog hún á skilið.“