Leikskólinn Laugasól í Laugardal verður tekinn í gegn og leikskólaplássum fjölgað um 50.
Borgarráð hefur samþykkt að heimila skóla- og frístundasviði og umhverfis- og skipulagssviði að hefja formlegan undirbúning að stækkun og endurbótum á leikskólanum Laugasól við Leirulæk 6 í Laugardal.
Ráðast á í gagngerar endurbætur á núverandi kjallara leikskólans þannig að hægt verði að bæta við tveimur deildum og fjölga plássum í leikskólanum um 46-50.
Í dag er Laugasól fjögurra deilda leikskóli með um 95 börn.
Kjallari hússins er niðurgrafinn en hann hefur verið nýttur sem geymsla, starfsmannarými, listasmiðja og fjölnota salur.
Að auki hefur ein deild skólans nýtt hluta kjallarans sem íverurými barna. Engin starfsemi hefur verið í kjallaranum síðan í lok síðasta árs þar sem ráðast þarf í nauðsynlegar endurbætur á húsnæðinu m.a. vegna rakavandamála. Við endurgerð kjallarans verður honum m.a. breytt í jarðhæð með því að grafa frá húsinu, laga útveggi og glugga og bæta við útgangi á lóð. Um leið eykst birta í húsnæðinu sem gefur um leið fleiri möguleika á nýtingu húsnæðisins m.a. fyrir tvær nýjar leikskóladeildir.
Samhliða fjölgun plássa er nauðsynlegt að stækka eldhús leikskólans og bæta starfsmannaaðstöðu. Í kjallaranum er einnig ráðgert að hafa listasmiðju og starfsmannarými auk þess sem komið verður fyrir lyftu til að tryggja aðgengi fyrir alla.
Eftir breytingarnar verður pláss fyrir samtals 141-145 börn á sex deildum á Laugasól en gert er ráð fyrir 10-12 nýjum stöðugildum við leikskólann í kjölfar stækkunar en núverandi stöðugildi við leikskólann eru 28.
Frumkostnaðaráætlun vegna breytinga á húsnæði og lóð fyrir starfsemi leikskóla er 410 milljónir króna.
Óháð þessari framkvæmd er gert ráð fyrir að ráðast þurfi í nauðsynlegt viðhald á efri hæð hússins og ytra byrði þess fyrir um 140 milljónir króna á næstu árum.
Gert er ráð fyrir að húsnæði og lóð geti verið tilbúið fyrir starfsemi leikskólans í febrúar 2022.
Verkefnið fellur vel að Græna plani borgarinnar og er hluti af Brúum bilið aðgerðaáætluninni sem felur í sér að fjölga leikskólarýmum um allt að 1100 á næstu árum til að geta innan fárra ára boðið börnum allt niður í 12 mánaða í leikskóla.