Leiðrétting Reykjavíkurborgar og Veitna ohf. vegna fréttar sem birtist á vef Fréttablaðsins sunnudaginn 13. júní undir fyrirsögninni „Mengunarslys í Elliðaárdal en lítil sem engin viðbrögð frá borginni“
Eftirfarandi er bréf sem sent var á ritstjórn Fréttablaðsins í dag, mánudaginn 14. júní;
Í fréttinni sem byggð er á einhliða frásögn íbúa við Stekkjarhvamm koma fram allmargar rangfærslur og því vilja Veitur og Reykjavíkurborg koma eftirfarandi á framfæri.
Við vinnslu fréttarinnar var ekki gerð ein einasta tilraun til þess að hafa samband við Veitur eða Reykjavíkurborg vegna fullyrðinga íbúans.
Við lítum atvik sem þetta alvarlegum augum og höfum í gær og í morgun rætt við fjölda fólks til þess að reyna að átta okkur á því hvað gerðist í raun og veru.
Fullyrt er í fréttinni að olía hafi lekið í settjörn og þaðan í Elliðaárnar. Hlutverk settjarnarinnar er að fanga mengun og jafna flæði og ekkert bendir til þess að olía hafi lekið í Elliðaárnar sjálfar.
Um leið og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og Veitur heyrðu af málinu á laugardagskvöld var haft samband við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sem brást umsvifalaust við með því að koma upp mengunarvörnum. Starfsmaður Veitna á bakvakt var kominn á staðinn klukkan rétt rúmlega 22:00. Starfsmenn Heilbrigðiseftirlitsins voru í samskiptum við Veitur og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins á laugardagskvöld og á staðnum á sunnudag og veittu ráðgjöf við hreinsunarstörfin.
Fullyrt er í fréttinni að starfsmenn Reykjavíkur hafi ekki brugðist við ábendingum um olíulekann á fimmtudaginn. Dýraþjónustu Reykjavíkur barst síðastliðinn fimmtudag óljós ábending í gegnum símaver Reykjavíkurborgar um að það væri olíublaut önd á vappi í nágrenni við Aktu Taktu. Starfsmenn fóru strax á staðinn en fundu enga olíublauta fugla. Aftur leituðu starfsmenn að olíublautum fuglum á því svæði á föstudag en þar sem ábendingunni hafði ekki fylgt símanúmer var ekki hægt að fá frekari upplýsingar. Reykjavíkurborg eða Veitum bárust ekki formlegar ábendingar um olíuleka í Elliðaárdalnum. Fyrst bárust ábendingar um staðsetningu olíunnar í settjörninni á laugardagskvöld frá íbúaráði Breiðholts og var þá brugðist við umsvifalaust eins og áður segir. Starfsmenn Dýraþjónustunnar hafa leitað að fuglum í vanda en þeir sem hafa fundist hafa verið með það þunnt lag af olíu að þeir hafa enn verið fleygir og því flogið burt. Enn er þó hætta á að fuglar innbyrði olíu.
Það er því alrangt sem haldið er fram í fréttinni að það hafi verið „lítil sem engin viðbrögð frá borginni."
Þá er fullyrt í fréttinni að starfsmaður Veitna hafi sagst ekki mátt hafa samband við Húsdýragarðinn til þess að ná í meira sag og hey til þess að setja í settjörnina. Bakvaktarmaður Veitna segist engu hafa svarað til um þetta auk þess sem ekki hefði átt að setja sag og hey í tjörnina þar sem það gerði hreinsun mun erfiðari.
Þá fullyrðir íbúi að „þeir“ hafi sagt að ekki væri hægt að nota vatnssugu því hún gæti skemmst. Bakvaktarmaður Veitna ræddi þetta ekki við íbúa en kallaði út mannskap frá Hreinsitækni á sunnudagsmorgun sem sogaði olíuna upp.
Þá gerum við einnig athugasemd við myndbirtingu af fuglshræi með fréttinni. Augljóst er að fuglinn dó fyrir all nokkru en er ekki tengdur þessu máli að neinu leyti. Athygli vekur einnig að Fréttablaðið styðst eingöngu við aðsendar myndir.
Ekki er hægt að segja til um uppruna olíulekans en starfsmenn Heilbrigðiseftirlits eru að rannsaka málið í samstarfi við Veitur og Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðisins.
Að lokum viljum við beina fólki sem verður vart við olíublauta fugla að hafa samband við Dýraþjónustuna í síma 822 7820 eða á dyr@reykjavik.is þar sem starfsmenn nota sérstakar aðferðir við að þrífa þá og koma aftur til heilsu.