Leiðbeiningar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, til einstaklinga sem dvelja utandyra, vegna mengunar af völdum brennisteinsdíoxíðs (SO2) frá eldgosinu í Fagradalsfjalli.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist með loftgæðum í borginni og gefur út viðvaranir þegar viðvarandi styrkur SO2 er á bilinu 300-2000 µg/ m3. Fari styrkur SO2 yfir 2000 µg/ m3 gefa Almannavarnir í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur út tilkynningar með leiðbeiningum um nauðsynleg viðbrögð. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vísar einnig til upplýsinga í töflu Almannavarna sem sýnir rétt viðbrögð við SO2 mengun. Hún útlistar viðbrögð eftir styrk mengunar og eftir því hvort um heilbrigða einstaklinga sé að ræða eða einstaklinga sem eru viðkvæmir fyrir vegna sjúkdóma í lungum og/eða hjartasjúkdóma. Það skal tekið fram að börn flokkast sem viðkvæmir einstaklingar þó að þau hafi ekki undirliggjandi sjúkdóma.
Umhverfisstofnun hefur gefið út ráðleggingar um viðbrögð við SO2 gasmengun og áhrif á heilsufar og er taflan aðgengileg hér: https://ust.is/loft/loftgaedi/loftmengun-i-eldgosum/
Litirnir í töflunni miða eingöngu við styrk SO2 í 10-15 mínútur. Áhrif loftmengunar á heilsu eru háð þeim tíma sem fólk dvelur í menguninni. Heilsuverndarmörk fyrir klukkutíma eru 350 µg/m3 og heilsuverndarmörk fyrir sólarhring eru 125 µg/m3. Samkvæmt töflunni er mælt með því að þegar styrkur SO2 fer yfir 2000 µg/m3 skuli allir einstaklingar forðast áreynslu utandyra.
Þegar mengun frá eldgosinu í Fagradalsfjalli berst inn á höfuðborgarsvæðið geta komið háir mengunartoppar sem hafa oftast gengið fljótt yfir. Mengun í lægri styrk getur varað í lengri tíma. Viðkvæmir einstaklingar, forsvarsmenn barna og atvinnurekendur eiga að fylgjast með loftgæðamælingum, hafi borist tilkynningar um háan styrk SO2. Mælingar má sjá á loftgæðavef Reykjavíkurborgar, www.reykjavik.is/loftgaedi og á vef Umhverfisstofnunar, www.loftgaedi.is. Miðað skal við þær mælistöðvar sem næst liggja vinnustöð starfsmanna þegar metið er hvort vinnuaðstæður séu viðunandi. Einnig er bent á að fylgjast með gasspá á https://www.vedur.is/eldfjoll/eldgos-a-reykjanesi/gasmengun/.
Samkvæmt Vinnueftirliti ríkisins eru vinnuverndarmörk fyrir brennisteinsdíoxíð (SO2) fyrir 8 klst. 1300 µg/m3 en hámarksgildi fyrir hverjar 15 mínútur er 2600 µg/m3. Fari styrkur SO2 yfir 1300 µg/m3 að meðaltali yfir 8 klst. tímabil skal stytta vinnutímann í hlutfalli við styrk mengunarinnar eða starfsmenn noti gasgrímur. Fari styrkur SO2 á 15 mínútna tímabil yfir tvöföld mengunarmörkin þ.e. 2600 µg/ m3 að meðaltali skal vinnu hætt eða starfsmenn noti gasgrímur.
Ákvarðanir um vinnu utandyra á að taka m.t.t. mæligilda, staðsetningu vinnustaðar og eðli starfa. Ef mæligildi fara að vera yfir 2600 µg/m3 yfir 15 mínútur er ráðlagt að bíða innandyra þar til þau hafa gengið niður að öðrum kosti nota hlífðarbúnað s.s. gasgrímu. Heilbrigðiseftirlitið í Reykjavík hvetur almennt til að fólk fylgist með og noti leiðbeiningar til að taka ákvarðanir um viðbrögð og dvöl utandyra.
Hægt er að fá frekari upplýsingar hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Hafa skal samband við Helga Guðjónsson, gsm: 6939678 og Rósu Magnúsdóttur, gsm 6939650.
Heimildir:
- www.reykjavik.is/loftgaedi
- www.loftgaedi.is
- https://ust.is/loft/loftgaedi/loftmengun-i-eldgosum/
- http://avd.is/is/?page_id=730
- https://dispersion.vedur.is/#/page/run_list
- https://www.vinnueftirlit.is/um-vinnueftirlitid/frettir/mikilvaegt-ad-fylgjast-med-throun-loftgaeda-vid-vinnu-utan-dyra-i-kjolfar-eldgoss-og-eldvirkni
- http://www.vinnueftirlit.is/um-vinnueftirlitid/frettir/nr/1170