„Allt í einu á ég bara allan minn tíma. Ég er ekki alveg búin að venjast því ennþá en ég hef nóg að gera. Ég prjóna mikið, les mikið og svo er ég í sjálfboðavinnu á hjúkrunarheimilinu Eir. Ég mæti þangað reglulega og les fyrir fólkið,“ segir þroskaþjálfinn Ágústa Markrún Óskarsdóttir, sem jafnan er kölluð Markrún.
Markrún varð sjötug þann 3. mars. Það voru stór tímamót í hennar lífi, því samhliða þeim hætti hún störfum í skammtímavistuninni að Álfalandi 6, þar sem hún hefur unnið með fötluðum og langveikum börnum í rúmlega 30 ár. „Ég var ákveðin í því að þegar ég myndi minnka við mig vinnu ætlaði ég að láta gott að mér leiða. Svo finnst mér bara svo gaman að lesa fyrir fólk, bæði börn og fullorðna,“ segir hún.
Markrún fór að vinna hjá Reykjavíkurborg um leið og hún útskrifaðist sem þroskaþjálfi árið 1979, á Vistheimili barna á Dalbraut. „Á meðan ég var í þroskaþjálfanáminu var farið í heimsókn á Vistheimili barna. Mér leist svo vel á starfið þar svo ég sótti um med det samme,“ rifjar Markrún upp. Hún vann á Vistheimilinu allt þar til flutt var í Álfaland í ársbyrjun 1987, þar sem hún tók við þeirri ábyrgð að vera staðgengill forstöðumanns. „Ég segi alltaf að ég hafi verið flutt með húsgögnunum,“ segir hún og hlær. Hún segir að á þeim tíma hafi henni þótt erfið tilhugsun að taka að sér svo stórt ábyrgðarhlutverk en hún hafi haft gott af því að stinga sér út í djúpu laugina. Hún gegndi starfi staðgengils forstöðumanns allt þar til hún minnkaði við sig vinnu árið 2013.
Margt hefur að sögn Markrúnar breyst í umönnun fatlaðra barna á þeim árum sem hún hefur unnið með þeim. Í dag sé starfsfólk meira vakandi fyrir þörfum barnanna. Starfið sé faglegra og og það sé liðin tíð að litið sé á stofnanir sem nokkurs konar geymslur. „Á meðan börnin eru hjá okkur má segja að við göngum þeim í foreldra stað. Svona er nálgunin öll orðin mannlegri og meiri áhersla á að vinna með hverjum og einum einstaklingi.“
Í tilefni tímamótanna var blásið til veislu í Álfalandi í síðustu viku, þangað sem vinir og samstarfsfólk Ágústu Markrúnar komu saman og fögnuðu með henni. Á meðal þeirra sem mættu var Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sem færði henni fallegan blómvönd og þakkaði fyrir vel unnin störf í gegnum árin. Hún fékk einnig blómvönd frá velferðarsviði og gjöf frá samstarfsfólki sínu í Álfalandi. „Ég var í skýjunum með þetta allt saman og að vera kvödd svona fallega. Álfaland hefur alla tíð verið eins og mitt annað heimili og fólkið þar eins og mín önnur fjölskylda. Ég sakna þeirra allra en ætla að verða dugleg að heimsækja þau. Þetta var yndislegur dagur og ég var með brosið fast á andlitinu þangað til ég sofnaði.“