Kröftugur og sjálfbær vöxtur borgarinnar til langrar framtíðar er leiðarljós í breytingum á Aðalskipulagi Reykjavíkur. Tillögur að umfangsmiklum breytingum á aðalskipulaginu voru samþykktar í auglýsingu á fundi borgarstjórnar þann 16. febrúar. Breytingarnar snúa einkum að stefnu um íbúðarbyggð innan þéttbýlis borgarinnar. Auk þess eru boðaðar stöku breytingar á völdum atvinnusvæðum og samgönguinnviðum. Tillögurnar gera einnig ráð fyrir því að tímabil aðalskipulagsins verði framlengt til ársins 2040 og í tilefni þess eru sett fram ný megin markmið í völdum málaflokkum.
Skoða lýðheilsukort í góðri upplausn.
Hlustað á íbúa
Drög að tillögunum höfðu áður verið í forkynningu sem lauk í desember síðastliðnum. Fjölmargar athugasemdir og ábendingar komu fram við drögin og hefur verið komið til móts við margar þeirra í þeirri tillögu sem nú var samþykkt í auglýsingu. Meðal þess er að falla frá skilgreiningu nýs atvinnusvæðis í Höllum í Úlfarsárdal, setja ákvæði um almenningsgarð í bland við íbúabyggð á Framsvæðinu í Safamýri og herða á viðmiðum um hæðir húsa á nokkrum svæðum, meðal annars í Mjódd og við Glæsibæ.
Markmið breytinganna er að skapa þétta og blandaða byggð innan núverandi þéttbýlis Reykjavíkur til ársins 2040. Með tillögunum er sýnt fram á að þau landsvæði sem við höfum tekið frá undir íbúðarbyggð, atvinnusvæði og samgöngumannvirki í aðalskipulagi undanfarna áratugi, geta dugað okkur til ársins 2040 og sennilega mun lengur. Það þýðir að auðveldara er að framfylgja markmiðum borgarinnar um sjálfbæra þróun, verndun ósnortinna svæði í útjaðri, líffræðilega fjölbreytni, kolefnishlutleysi, vernd grænna útivistarsvæða, vistvænni ferðavenjur og uppbyggingu Borgarlínu og fjölbreyttari og skemmtilegri borg.
Skoða mynd í góðri upplausn Mynd/Atli Hilmarsson
Í takt við loftslagsstefnuna og Græna planið
Tilgangur breytinganna er meðal annars að tvinna betur saman áætlanir um uppbyggingu húsnæðis og fjölgun íbúa og starfa, við áform um byggingu og styrkingu vistvænna samgöngukerfa; Borgarlínu, stofnleiða Strætó bs, hjólastígakerfi og gönguleiðir. Tillögurnar eru í takti við Loftslagsstefnu borgarinnar til ársins 2040, leiðarljós svæðisskipulags til ársins 2040, megin markmið gildandi aðalskipulags, áform húsnæðisáætlunar og áherslur Græna plansins.
Ætlunin er að skapa forsendur fyrir kröftugri vöxt borgarinnar jafnhliða því að styðja við markmið um sjálfbæra borgarþróun, kolefnishlutleysi árið 2040, vernd náttúrusvæða og líffræðilega fjölbreytni og samkeppnishæft, lífvænlegt, réttlátt og fjölbreytt borgarsamfélag.
Reiknað er með því að lögformleg sex vikna auglýsing geti hafist í seinni hluta marsmánaðar, en Skipulagsstofnun ríkisins fær nú tillöguna til athugunar og umsagnar.
Lesa eldri frétt þar sem farið er nánar í helstu markmið breytinganna og hvað þær þýða.