Kröftugur og sjálfbær vöxtur borgarinnar til langrar framtíðar

Samgöngur Umhverfi

""

Drög að umfangsmiklum breytingum á Aðalskipulagi Reykjavíkur hafa verið lagðar fram til kynningar. Í breytingartillögunum felst heildaruppfærslu á stefnu aðalskipulagsins um íbúðarbyggð. Auk þess eru boðaðar stöku breytingar á völdum atvinnusvæðum og samgönguinnviðum. Tillögurnar gera enn fremur ráð fyrir því að tímabil aðalskipulagsins verði framlengt til ársins 2040 og í tilefni þess eru sett fram ný megin markmið í völdum málaflokkum. Hægt er að gera athugasemdir við tillögurnar fram til 27. nóvember næstkomandi.

Myndatexti: Mikil uppbygging hefur verið á RÚV-reitnum. Mynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Leiðarljós við mótun tillagna er að tvinna betur saman áætlanir um uppbyggingu húsnæðis og fjölgun íbúa og starfa, við áform um byggingu og styrkingu vistvænna samgöngukerfa; Borgarlínu, stofnleiða Strætó bs, hjólastígakerfi og gönguleiðir. Það er í takti við Loftslagsstefnu borgarinnar til ársins 2040, leiðarljós svæðisskipulags til ársins 2040, megin markmið gildandi aðalskipulags, áform húsnæðisáætlunar og áherslur Græna plansins. Ætlunin er að skapa forsendur fyrir kröftugri vöxt borgarinnar jafnhliða því að styðja við markmið um sjálfbæra borgarþróun, kolefnishlutleysi árið 2040, vernd náttúrusvæða og líffræðilega fjölbreytni  og samkeppnishæft, lífvænlegt, réttlátt og fjölbreytt borgarsamfélag.

Innviðir nýttir sem best

Þétt byggð grundvallast á þeirri heilbrigðu skynsemi að nýta sem best þá innviði sem fjárfest hefur verið í, hvort sem þeir felast í skólabyggingum, götum, stígum, leikvöllum, almenningsgörðum eða vatnsveitu. Það er ekki nýmæli í sögu borgarinnar að leggja áherslu á þéttari byggð, en í dag er það brýnni en nokkurn tímann áður, vegna loftslagsmálanna, vernd líffræðilegrar fjölbreytni, bættra ferðavenja, ráðdeildar í rekstri borgarinnar, til að stemmu stigu við fækkun nemenda innan skólanna og viðhalda félagslegri sjálfbærni hverfanna.

Yfir 90% uppbyggingarsvæðanna í aðalskipulaginu eru við fyrirhugaða Borgarlínu eða öflugar almenningsamgöngur, yfir 90% í göngufæri við grunnskóla og langflest í grennd við matvörubúð og öflugan hverfiskjarna. Yfir 90% byggingarsvæðanna eru á þegar röskuðu svæði eða svæði sem var áður ráðstafað undir byggð samkvæmt gildandi aðalskipulagi.  

Helstu meginmarkmið:

  • Stuðla að kröftugum og sjálfbærum vexti borgar sem styður við markmið um kolefnishlutleysi, vernd náttúrusvæða, líffræðilega fjölbreytni  og um samkeppnishæft, lífvænlegt, réttlátt og fjölbreytt borgarsamfélag.
  • Að skapa sjálfbær og heilbrigð borgarhverfi þar sem allir félagshópar hafa tækifæri til búsetu. Þróaðar verði sterkar hverfisheildir sem standi undir grunnþjónustu, öflugri verslun og þjónustu, íþrótta- og frístundastarfsemi og fjölbreyttu mannlífi. Atvinnutækifærum innan hverfa verði fjölgað og atvinnukjarnar í grennd við einsleit íbúðarhverfi verði styrktir.
  • Tryggt verði fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta fyrir alla félagshópa. Rúm verði fyrir þá alla og hverskonar búsetuúrræði innan íbúðarhverfa og blandaðra svæða. Lögð verði sérstök áhersla á uppbyggingu hagkvæms húsnæðis og leiguhúsnæðis á reitum í grennd við Borgarlínustöðvar.
  • Lýðheilsa borgarbúa verði ávallt höfð að leiðarljósi við skipulagningu og hönnun borgarumhverfisins. Skipulag hverfa örvi almennt hreyfingu, samveru, mannlíf og vistvænar ferðavenjur.
  • Að íbúar allra hverfa borgarinnar hafi gott aðgengi að grænum svæðum og fjölbreyttum almenningsrýmum. Lagður verði sérstakur metnaður í eflingu almenningsrýma innan eldri hverfa sem og nýrra við hönnun stærri og minni torga, göngugatna, smærri andrýma og gróðursvæða, stærri útivistarsvæða, leik- og íþróttasvæða og almennt dvalarsvæða fyrir alla aldurs- og félagshópa.
  • Við skipulagningu og hönnun íbúðarbyggðar verði gæði húsnæðisins og nærumhverfis þess í fyrirrúmi. Í því samhengi þarf horfa sérstaklega til birtuskilyrða, hljóðgæða og loftgæða innandyra sem og í inngörðum. Tryggja þarf að ákveðið lágmarkshlutfall lóða verði gróðursæl og sólrík útissvæði.
  • Að uppbygging sjálfbærra borgarhverfa og vistvænna samgönguinnviða haldist í hendur. Ákvarðanir í húsnæðismálum og samgöngumálum verði ávallt rækilega samfléttaðar.
  • Nálægð við almenningssamgöngur, vistvæna samgönguinnviði og fjölbreytta atvinnukjarna verði lögð til grundvallar við mat á þéttleika og yfirbragði íbúðarbyggðar á nýjum byggingarsvæðum.
  •  Uppbyggingu verði forgangsraðað í þágu Borgarlínu.* Fjölgun íbúa og starfa verði einkum innan áhrifasvæðis Borgarlínu.
  • Götur borgarinnar verði vistlegar, gróðursælar og öruggar og þjóni öllum ferðamátum. Svæði meðfram stofnbrautum verði endurheimt og þróuð fyrir þétta borgarbyggð, með stokkalausnum og endurhönnun umferðargatna.
  • Hlutdeild einkabílsins í öllum ferðum verði komin undir 50% árið 2040.
  •  Bílastæðum á landi borgarinnar verði markvisst fækkað á skipulagstímabilinu.
  • Innviðir verði almennt styrktir til að greiða fyrir orkuskiptum í samgöngum.
  • Reykjavík verði kolefnishlutlaus eigi síðar en 2040.

Endurhönnun borgarrýma

Í drögunum eru sett fram ný megin markmið sem verða til grundvallar við gerð hverfis- og deiliskipulags og mótun framkvæmdaáætlana á sviði húsnæðismála, samgöngumála, umhverfismála, endurhönnunar borgarrýma og við uppbyggingu annarra innviða. Sett eru háleitari markmið um breyttar ferðavenjur og stefnt að því að hlutdeild bílsins í öllum ferðum verð komin undir 50% árið 2040. Lagt er til að bílastæðum í landi borgarinnar verði markvisst fækkað og þau tekin undir fjölbreytt og gróðursæl svæði til almennanota.

Áfram verði unnið markvisst að því að bæta gatnarými borgarinnar, gera þau vistlegri, gróðursælli og öruggari  og að þau þjóni öllum ferðamátum. Svæði meðfram stofnbrautum verði endurheimt og þróuð fyrir þétta borgarbyggð, með stokkalausnum og endurhönnun umferðargatna.

Kort/Atli Hilmarsson

Skoða mynd í betri upplausn.

Lýðheilsa borgarbúa að leiðarljósi

Ríkari áhersla er lögð á félagslega sjálfbærni hverfa, að mikil fjölbreytni verði í framboði húsnæðis, þannig að í  hverju hverfi hafi allir félagshópar tækifæri til búsetu.

Lýðheilsa borgarbúa skal ávallt höfð að leiðarljósi við skipulagningu og hönnun nýrrar byggðar og hún örvi hreyfingu, samveru, mannlíf og vistvænar ferðavenjur. Lykilatriði er að íbúar allra hverfa borgarinnar hafi gott aðgengi að grænum svæðum og fjölbreyttum almenningsrýmum. Lagður verði sérstakur metnaður í eflingu opinna svæða innan eldri hverfa sem og nýrra;  við hönnun stærri og minni torga, göngugatna, smærri andrýma og gróðursvæða, stærri útivistarsvæða, m.a. með fjölgun afþreyingarmöguleika, leik- og íþróttasvæða og almennt dvalarsvæða fyrir alla aldurs- og félagshópa.

Við skipulagningu og hönnun íbúðarbyggðar verði gæði húsnæðisins og nærumhverfis þess í fyrirrúmi. Í því samhengi þarf horfa sérstaklega til birtuskilyrða, hljóðgæða og loftgæða innandyra sem og í inngörðum. Og tryggja þarf að ákveðið lágmarkshlutfall lóða verði gróðursæl og sólrík útisvæði.

Meiri borg, meiri náttúra

Markmiðið er að skapa þétta og blandaða byggð innan núverandi vaxtarmarka til ársins 2040. Með tillögunum er sýnt fram á að þau landsvæði sem við höfum tekið frá undir íbúðarbyggð, atvinnusvæði og samgöngumannvirki í aðalskipulagi undanfarna áratugi, geta dugað okkur til ársins 2040 og sennilega mun lengur.

Það þýðir að auðveldara er að framfylgja markmiðum Reykjavíkurborgar um sjálfbæra þróun, verndun ósnortinna svæði í útjaðri, líffræðilegan fjölbreytni, kolefnishlutleysi, vernd grænna útivistarsvæða, vistvænni ferðavenjur og uppbyggingu Borgarlínu og fjölbreyttari og skemmtilegri borg.

Fjölgun íbúa og starfa innan núverandi byggðar er mikilvæg af svo mörgum ástæðum. Með því styttum við almennt vegalengdir innan borgarinnar, styðjum við vistvænar ferðavenjur, drögum úr losun CO2 og komum í veg fyrir rask á ósnortinni náttúru í útjaðri byggðar. Þétting byggðar gefur okkur tækifæri til nýta betur fjárfestingar, s.s. í skólum, opnum svæðum, götum og veitukerfum, draga þar með úr kolefnisspori uppbyggingar og skapa hagkvæmari borgarþróun.

Hverfin styrkjast og gæðin nýtast betur

Fjölgun íbúa innan eldri byggðar leiðir einnig til þess að skólasamfélagið styrkist, bakland verslunar og þjónustu eflist og almenningsrýmin verða meira lifandi. Uppbygging vistvænnar íbúðarbyggðar á eldri atvinnusvæðum leiðir einnig til þess að umhverfisgæðin í hverfinu aukast almennt og leiðir oft til endurbóta á innviðum og opnum svæðum í grenndinni. Það er líka ákveðið réttlætismál að gefa nýjum íbúum tækifæri til að njóta þeirra umhverfisgæða, þjónustustofnana og innviða sem eru til staðar í okkar fjölskylduvænu og grónu íbúðarhverfum.

Myndatexti: Íbúðarbyggð verði þróuð í takti við uppbyggingu Borgarlínu. Markmiðið er að minnst 80% nýrra íbúða og nýrra atvinnutækifæra verði innan áhrifasvæðis Borgarlínu. Uppbyggingu íbúðarhúsnæðis verður forgangsraðað með tilliti til nálægðar við öflugar almenningssamgöngur og fjölbreytta atvinnu- og þjónustukjarna. Nýtt íbúðarhúsnæði skal einnig styðja við félagslega sjálfbærni í viðkomandi hverfi.

Skoða mynd í betri upplausn.

Fjölbreytt byggingarsvæði í öllum borgarhlutum

Í aðalskipulaginu eru skilgreind yfir 100 svæði sem ætluð eru fyrir nýja íbúðarbyggð, þar af um 25 ný svæði sem boðuð eru í breytingartillögunum. Á stærstu svæðunum er gert ráð fyrir að rísi nýir borgarhlutar, eins og í Ártúnshöfða og Vatnsmýri með mörgum nýjum grunnskólum. Á öðrum stórum svæðum rísa ný skólahverfi, eins og í Skerjafirði, Vogabyggð og Keldnalandi, en á flestum hinna smærri byggingarsvæða verður ný íbúðarbyggð viðbót við þau hverfi sem eru til staðar.

Svæðin eru fjölbreytt bæði að stærð og gerð, við sjávarsíðuna, í jaðri opinnar náttúru, innan þéttrar blandaðrar byggðar, við golfvöll, á efri hæðum matvörubúðar, við fyrirhugaða Borgarlínustöð, við gróskumikinn borgargarð, í göngufæri við framhaldsskóla, í næsta nágrenni við góða veitingastaði, í grennd við sundlaug eða lifandi borgartorg.

Þúsund íbúðir á ári – fjórðungur á vegum húsnæðisfélaga

Boðaður er kröftugri vöxtur í Reykjavík en verið hefur undanfarna áratugi. Lagt er til að byggðar verði minnst 1.000 íbúðir á ári að meðaltali til ársins 2040 og að um 25% verði á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í ágóðaskyni. Háleitari markmið aðalskipulags um fjölgun íbúða eru grundvölluð á því húsnæðisátaki sem staðið hefur yfir undanfarin ár.

 Stóraukið framboð íbúða er tryggasta leiðin til að skapa ásættanlegra húsnæðisverð á hinum almenna markaði, bæði á miðlægum svæðum og í útjaðri byggðar. Markviss áætlun um jafnari fjölgun íbúða, studd af opinberum aðilum, er einnig til þess gerð að draga úr sveiflum á byggingarmarkaði, skapa stöðugri húsnæðismarkað og jafna almennt hagsveiflur í samfélaginu.

Auknar kröfur um gæði íbúðarbyggðar og félagsleg sjálfbærni

Í breytingartillögunum er áréttað að gæði húsnæðisins og nærumhverfis þess verði ávallt í fyrirrúmi við skipulagningu og hönnun nýrrar íbúðarbyggðar.  Einnig er undirstrikað betur að félagsleg blöndun og fjölbreytni verði alltaf leiðarljós við skipulagningu nýrra hverfa og framboð húsnæðis verði með þeim hætti að sem flestir geti flutt innan hverfis, þegar stækka eða minnka þarf við sig.

Við hönnun íbúðarbyggðar þarf að horfa til stærðar og gerðar íbúða fyrir mismunandi fjölskyldugerðir og félagshópa, birtuskilyrða, hljóðgæða og loftgæða í íbúðum, inngörðum og nærumhverfi húsnæðisins. Einnig hæðar byggingar og fjarlægða milli þeirra, dýptar húsbygginga og hlutfalls útisvæða til leiks og dvalar þar sem sólar nýtur bróðurpart dags. Tillögurnar fela í sér að sett verði fram mun ákveðnari markmið og kröfur um vandaða hönnun íbúðarhúsnæðis.

Myndatexti: Í tillögunum er fjallað um hvernig mismunandi þéttleiki íbúðarbyggðar og byggingarform hafa áhrif á gæði eins og birtuskilyrði á leiksvæðum og umfang grænna svæða.  Ein grunnregla sem hefur reynst vel í nágrannalöndum okkar er að setja ákveðin viðmið um birtuskilyrði á útisvæðum. Víða er mælt með því að meiri en helmingur leiksvæða barna og önnur dvalarsvæði utandyra, innan lóða sem og á sameiginlegum svæðum, geti, að vori, notið sólar að lágmarki í 5 klukkustundir á dag. Skýringarmynd: Teiknistofan Stika, september 2020.

Skoða mynd í betri upplausn.

Meiri sveigjanleiki og betra stjórntæki

Auk breytinga á einstökum ákvæðum og markmiðum aðalskipulagsins eru lagðar til ýmsar úrbætur á framsetningu stefnunnar og skerpt á því hvernig beri að túlka hana. Markmiðið er að gera aðalskipulagið að betra stjórntæki; að auðveldara verði að tryggja gæði byggðar í samræmi við sett markmið og styrkja samningsstöðu borgaryfirvalda í viðræðum um magn og gerð uppbyggingar á einstaka reitum. Jafnhliða því er takmarkið að gera aðalskipulagið almennara og sveigjanlegra, sem ætti að leiða til færri breytinga á því í framtíðinni.

Tillögur að breytingum á aðalskipulaginu hafa nú verið lagðar fram og verða til kynningar sem drög næstu vikurnar. Ábendingum og athugasemdum við drög að aðalskipulagsbreytingum má koma á framfæri á netfangið skipulag@reykjavik.is eða skriflega til Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, póstnúmer Reykjavík. Sjá nánar á adalskipulag.is