Kostnaðarauki við styttingu vinnuvikunnar er vegna vaktavinnu

Velferð Atvinnumál

""

Áætlaður kostnaðarauki Reykjavíkurborgar vegna styttingar vinnuvikunnar er tilkominn vegna styttingar hjá vaktavinnufólki þar sem bæta þarf við mannafla til að tryggja mönnun.   

Stytting vinnuvikunnar hjá starfsfólki í dagvinnu tók gildi 1. janúar og  hefur undirbúningur vegna innleiðingarinnar verið umfangsmikill alveg frá því að kjarasamningar voru undirritaðir á síðasta ári.  Vinnutímahópar skipaðir starfsfólki og stjórnendum á öllum starfsstöðum borgarinnar fóru af stað í október og tekin voru umbótasamtöl á starfsstöðum þar sem forsenda styttingar vinnutíma hjá dagvinnufólki var samtal um betri nýtingu vinnutíma.  Tillögur vinnutímahóps að afloknu umbótasamtali við starfsfólk fóru síðan til atkvæðagreiðslu hjá starfshópum. Tillaga að breyttri vinnutilhögun mátti ekki fela í sér aukinn kostnað eða skerðingu á þjónustu.

Hins vegar er undirbúningur vegna styttingar vinnuviku hjá starfsfólki í vaktavinnu einnig í fullum undirbúningi og kemur til framkvæmda 1. maí næstkomandi. Starfsfólk og stjórnendur á vaktavinnustarfsstöðum hafa lokið umbótasamtölum og er verið að meta mönnunarforsendur. Að óbreyttu mun stytting vinnuskyldu vaktavinnufólks, úr 40 í 36 virkar stundir, hafa veruleg áhrif á starfsemi starfsstaða og svokallað mönnunargat myndast. Við því þarf að bregðast og verður því starfsfólki í hlutastarfi boðið að hækka starfshlutfall. Einnig gæti þurft að bæta við starfsfólki vegna þessa. Áætlað er að kostnaðarauki vegna styttingar vinnuvikunnar í vaktavinnu verði um  520 milljónir króna á þessu ári.

Niðurstaðan er sú að langflestir starfsstaðir borgarinnar eru að fara í 36 stunda vinnuviku eftir kosningar starfsfólks um tillögur að styttingu á starfsstað og eru að fara gera umbætur í sinni starfsemi til að ná fram betri nýtingu á vinnutímanum. Á þeim starfsstöðum þar sem farið er í 36 stunda vinnuviku, sem er jafnframt hámarksstytting, afsalar starfsfólk sér jafnframt forræði á neysluhléum en hlé eru aðlöguð að styttingu og tryggt að starfsfólk fái hvíldar- og neysluhlé yfir vinnudaginn.

Framundan er mikil vinna við að innleiða þær tillögur um styttingu vinnuvikunnar sem hafa verið staðfestar.  Hefja þarf vinnu við þær umbætur í starfsemi starfsstaða sem starfsfólk sammæltist um að fara í til að ná fram betri vinnutíma. Umbæturnar felast í því að bta vinnustaðamenningu, nýtingu vinnutíma og að innleiða tækninýjungar sem starfsfólk kom með hugmyndir að sem samræmast stefnu borgarinnar varðandi stafræna  umbyltingu. Einnig er farin  af stað ýmis fræðsla tengd styttingu vinnuvikunnar eins og námskeið í tímastjórnun og verður fjölbreytt fræðsla í gangi á næstunni sem tengist þessu stóra verkefni.

Meginmarkmið styttingu vinnuvikunnar er að stuðla að umbótum í starfsemi starfsstaða, bæta vinnustaðamenningu og nýtingu vinnutíma án þess að draga úr skilvirkni og gæðum þjónustu, tryggja betur gagnkvæman sveigjanleika og stuðla þannig að bættum lífskjörum og samræmingu vinnu og einkalífs. Bætt vinnustaðamenning og betri nýting vinnutíma er meðal helstu markmiða styttingar vinnutíma.