Hrefna Þórarinsdóttir er frístundaráðgjafi hjá félagsmiðstöðinni Tjörninni. Hennar stærsta verkefni er að veita forstöðu hinsegin félagsmiðstöð Samtaka 78 og Tjarnarinnar, sem styður við hinsegin börn og ungmenni.
Hrefna ólst upp á Álftanesi en gerðist miðbæjarrotta þegar hún flutti að heiman 25 ára. Þegar kom svo að því að festa kaup á íbúð togaði Álftanesið í hana. Þar réði mestu nálægð við náttúruna, fjölskyldu og vini.
Hrefna segir að hún sé í ljónsmerkinu og mikið ljón samkvæmt stjörnuspekinni. Henni líði því vel í kastljósinu. Í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ tók hún þátt í að stofna leikfélagið við skólann og síðar leikstýrði hún og setti upp sína eigin söngútgáfu af stykkinu„Birdcage“ með menntaskólanemum. „Ég er alltaf að skrifa, núna mest skemmtisögur af sjálfri mér. Ég get verið svo skemmtilega seinheppin. Mig dreymdi frá barnæsku um að verða leikkona og var búin að fá inni í tveimur skólum í Englandi þegar ég uppgötvaði að frístundastarfið var mín köllun. Þegar ég hóf síðan nám í tómstunda- og félagsmálafræði fékk ég fullvissu fyrir því; samskipti við fólk og leikræn tjáning í einu og sama starfinu,“ segir Hrefna.
Getur verið basl að passa inn
Árið 2012 fór Hrefna að vinna hjá frístunda- og félagsmiðstöðinni Kampi, sem þá tilheyrði Miðborg og Hlíðum. Með sameiningu Kamps og Frostaskjóls árið 2016 varð til Tjörnin, sem er með frístunda- og félagsstarf í Vesturbæ, Miðborg, Holtum og Hlíðum, og þar vinnur Hrefna enn. „Nú er ég forstöðumaður Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar sem er í húsnæði Spennustöðvarinnar. Þar hef ég mótað alls kyns hópastarf til að styrkja ólíka hópa, brúa bilið á milli aldurshópa og skapa flæði milli félagsmiðstöðvanna. Ég hef verið mikið í sértæku hópastarfi t.d. með krakka sem eiga eitthvað sameiginlegt en rekast ekkert endilega saman í venjubundnum hópum. Og þá getur verið gott að grípa til leiklistar og tjáningar. Það er svo mikið basl að passa inn stundum en það sýnir líka hvað við erum komin langt í að vera alls konar.“
Hrefna þekkir það vel að vera unglingur og passa ekki inn. Börnin á Álftanesi fóru í Garðabæ þegar kom að sjöunda bekk og þau voru svolítið álitin sveitalubbarnir í Garðabænum. Hrefnu leið ekki vel í unglingadeildinni. ,,Í áttunda bekk var svo starfsmaður í félagsstarfinu sem fór að draga mig inn í það. Það er hlutverk okkar frístundaráðgjafanna að finna þessa krakka sem þurfa stuðning og fá þau til að taka þátt í starfinu okkar. Á sama tíma og ég fór að vinna í félagsstarfi var ég sjálf í mikilli sjálfsskoðun og þá rifjaðist upp fyrir mér hvernig þátttaka í starfi félagsmiðstöðvar bjargaði mér sem unglingi. Þetta hafði áhrif á starfsval mitt og mér varð ljóst að mig langaði að gefa til baka.“
Hrefna segir íþrótta- og tómstundastarf hafi breyst mikið sl. tíu ár. „;Það er miklu meira í boði og svo er líka orðið svo auðvelt að hanga heima. Það er ekki lengur nóg að auglýsa pizzakvöld og það þarf meira til að ná til barna og unglinga í dag. Skilaboðin þurfa að vera persónuleg og þess vegna vex sértæku hópastarfi fiskur um hrygg.“ Hún segir ekki greinanlegan mun á kynjum í þátttöku í félagsstarfi.
Sannleikurinn í andartakinu
Árið 2016 var leitað til Hrefnu um að taka þátt í að móta starf ungliðahreyfingar í samstarfi við Samtökin ‘78. „Ég sagði nei í fyrstu. Mér fannst ég ekki eiga heima í þessu verkefni, sjálf 100% gagnkynhneigð. Fólk gæti líka haldið að ég væri lesbía. Það hlaut einhver annar að geta tekið þetta. Ég var svo ein að aka Hellisheiðina þegar það skall á mig eins og flóðbylgja að ég væri fordómafull og að það ætti ekki að skipta neinu máli hvað annað fólk hugsaði um mína kynhneigð. Mér fannst líka að úr því að ég væri svona hrædd við verkefnið væri það skylda mín að taka það að mér. Ég var þarna komin með talsverða reynslu og mér fannst í raun fjarstæða að ég gæti þetta ekki. Til að gera langa sögu stutta þá breytti þetta verkefni mér. Ég er víðsýnni og óhræddari við að stökkva út í djúpu laugina. Þetta er stórt og umfangsmikið verkefni en ég sé líka árangur af því og hvað það breytir miklu fyrir þá sem að því koma. Ég ætla aldrei að hætta að læra og verða betri fagmaður,“ segir Hrefna.
Hópur hinsegin ungmenna samanstendur af hinsegin krökkum en einnig vinum og stuðningsaðilum. „Það skiptir máli að fá styðjandi krakka líka því við þurfum öll að vera sátt við eigin kynvitund og kynhneigð. Sviðið er orðið svo breitt og sannleikurinn er í andartakinu. Krakkar kenna okkur að það er allt í lagi að vera flæðandi í skilgreiningu um hver þú ert,“ segir Hrefna. Stærsti hópurinn sem tekur þátt í hinsegin félagsstarfi er frá 13-16 ára en það er líka hópur 10-12 ára krakka. Ungmenni frá 16 til 18 ára eru líka velkomin á meðan þau eru að fóta sig eftir grunnskóla. Fyrst komu 15-20 krakkar í starfið, sem var þá staðsett í húsnæði Samtakanna ´78 við Suðurgötu. Starfið óx hratt og er núna í stærra húsnæði, Spennustöðinni við Austurbæjarskóla. Árið 2019 tóku að meðaltali 77 ungmenni þátt og á þessu ári mæta 120-140 ungmenni í Hinsegin starf í Spennustöðina á þriðjudögum.
Þekking á hinsegin málefnum er alltaf að aukast hjá leik- og grunnskólum bæði starfsfólki og foreldrum barna.
Hinsegin félagsstarf verði hluti af frístund borgarinnar
Hinsegin félagsstarfið hlaut hvatningarverðlaun skóla- og frístundasviðs árið 2018 og sama ár veitti Barnaheill því viðurkenningu. Í mars á þessu ári fékk starfið húmanistaverðlaun Siðmenntar og starfið er á lista Norrænu ráðherranefndarinnar yfir tíu bestu verkefnin í málefnum hinsegin fólks.
Hrefna segist óska þess að Hinsegin félagsstarfið verði hluti af frístunda- og félagsstarfi borgarinnar. ,, Starfið er að hluta til rekið á styrkjum sem renna út í vor en búið er að sækja um áframhald en það er ekkert öruggt,“ segir Hrefna.
Aðspurð um líðan í COVID-19 faraldrinum og rafræna þjónustu segir Hrefna „Það jafnast ekkert á við að hitta fólk og tala við fólk. Knúsið er okkar stærsta vopn. Með því að missa knúsið er búið að svipta okkur ofurkröftum. Það vantar knúsið og klappið, handabandið má fara mín vegna en knúsið verður að lifa. Knús eða faðmlag er mennskur plástur - það róar, það huggar og það samgleðst.“
Hér má einnig sjá Hrefnu og Maríu Rut spjalla sama í Sófanum. Sófinn er þáttur á vef Samfés þar sem fólk kemur í sófaspjall og fjallar um málefni tengd ungu fólki.
#fólkiðokkaríborginni #Fólkiðokkar #Fólkiðíborginni #hittumstáworkplace