Kapphlaupið að kolefnishlutleysi

Umhverfi Stjórnsýsla

""

Reykjavíkurborg tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi borga gegn loftslagsbreytingum.

Í tilefni af Degi Jarðar sem haldinn var hátíðlegur í gær birtu borgarstjórar víða um heim sameiginlega grein þar sem minnt var á þær skuldbindingar sem felast í Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál frá 2015. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík birti greinina í Fréttablaðinu í gær.

Grein borgarstjóranna var skrifuð að frumkvæði Anna Hidalgo borgarstjóra Parísar. Þjóðir heims er hvattar til að standa við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum og minntar á að við stöndum á mikilvægum tímamótum svo það takist að stöðva hlýnun jarðar og snúa þannig við geigvænlegri þróun fyrir jörðina.

Á þessu ári verða haldnar tvær stórar alþjóðlegar ráðstefnur um umhverfismál í heiminum;  Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna verður haldin í Glasgow í lok árs og ráðstefna um líffræðilegan fjölbreytileika í Kunming í Kína.

Í tilefni þess að fimm ár voru liðin frá Parísarfundinum um loftslagsmál undirrituðu 133 borgir, þar á meðal Reykjavík, sérstaka Parísaryfirlýsingu í desember 2020 þar sem borgir voru hvattar til samstarfs og að vinna einhuga að því að draga úr losun.  Loftslagsfundurinn í Glasgow verður haldin undir þeirri yfirskrift - Race to Zero – eða Kapphlaupið að kolefnishlutleysi.

Allar þessar borgir hafa með yfirlýsingunni skuldbundið sig til að ná kolefnishlutleysi. Markmið Reykjavíkur er að ná þessu markmiði eins fljótt og auðið er, í síðasta lagi fyrir 2040.

Þannig vinnur Reykjavíkurborg að því að byggja upp kraftmikla innviði sem gera sem flestum samgöngumátum jafn hátt undir höfði til að draga úr útblæstri gróðurhúsaloftegunda. Undirbúningur er þegar hafinn við að koma upp hágæða almenningssamgöngum – Borgarlínu – til að bjóða upp á alvöru valkost í samgöngum fyrir íbúa og gesti höfuðborgarsvæðisins.  Þá stuðlar borgin að orkuskiptum í samgöngum með rafvæðingu og fleiri valkostum eins og notkun metangass sem verður til við förgun úrgangs.

Dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, Carbfix, hefur einnig mikil áform um kolefnisförgunarmiðstöð sem byggir á einstakri tækni sem OR hefur þróað í samstarfi við vísindamenn við Háskóla Íslands og í alþjóðasamstarfi.

Eitt af höfuðmarkmiðum Græna plansins, efnahagsáætlun sem Reykjavíkurborg hefur sett sér er að vinna hratt að því næsta áratuginn að komast örugglega í mark í kapphlaupinu um kolefnishlutleysið.