Nokkrar breytingar eru fyrirhugaðar á reglum um stuðningsþjónustu annars vegar og stuðnings- og stoðþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir hins vegar. Hægt er að skila inn umsögnum um breytingarnar í gegnum umsagnagátt velferðarsviðs.
Stoðþjónusta fyrir fatlað fólk, sem áður var nefnd stuðningsþjónusta, er stuðningur við fatlað fólk til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess og skapa skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Um er að ræða stuðning við heimilishald og athafnir daglegs lífs svo að viðkomandi geti búið heima, verið sjálfstæður og félagslega virkur. Stuðningurinn byggist fyrst og fremst á þeim markmiðum sem fatlað fólk setur sér til að ráða við daglegt líf.
Þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á stuðnings- og stoðþjónustu fyrir fatlað fólk fela meðal annars í sér að:
- Aðgengi fatlaðs fólks að umsóknarferli stuðnings- og stoðþjónustu er einfaldað til muna.
- Meiri áhersla er lögð á sjálfsmat fatlaðs fólks og hlutdeild þess í mótun stuðningsins aukin, með gerð sérstakrar stuðningsáætlunar.
- Stuðningur getur farið fram bæði innan og utan heimilis og lagt er til að hægt verði að veita næturþjónustu í öryggisskyni í formi innlita eða samtals. Markmiðið með því er að auka vald fatlaðs fólks yfir aðstæðum sínum þegar kemur að því hvaða stuðningur er veittur og hvernig hann er veittur.
Markmiðið að styðja fólk til að búa lengur heima
Stuðningsþjónusta, sem áður var nefnd félagsleg heimaþjónusta, er fyrir þau sem búa á eigin heimili og þurfa stuðning vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags eða veikinda. Markmið þjónustunnar er að styðja og þjálfa notendur til þess að geta búið heima, bjargað sér sjálfir og verið félagslega virkir.
Þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á stuðningsþjónustu eru meðal annars:
- Bæst hefur við þjálfun endurhæfingarteymis í heimahúsi og aðstoð viðbragðsteymis.
- Markmið um að efla umsækjanda til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi við sem eðlilegastar aðstæður er gert skýrara og nánar kveðið á um hvernig þetta skal gert heldur en gert er í núgildandi reglum.
- Heimilt verður að veita félagslegan stuðning utan heimilis.
- Ríkari áhersla verður lögð á samvinnu við umsækjanda um það hvers konar stuðningi hann þurfi á að halda. Horfið verður frá því að stuðningsþörf sé metin í ákveðinn fjölda klukkustunda og í þess stað horft til fjölda skipta sem þörf er á stuðningi.
- Áhersla lögð á að einfalda alla umsýslu varðandi umsóknir og samþykktar umsóknir.
Notendur og hagsmunaaðilar geta skilað inn umsögn
Notendur, hagsmunaaðilar og aðrir áhugasamir geta skilað um umsögn um drög að breytingunum.
Smelltu hér til að skoða þær breytingar sem lagðar eru til á reglum um stuðningsþjónustu og skila umsögn.
Smelltu hér til að skoða hvaða breytingar eru lagðar til á reglum um stuðnings- og stoðþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og skila inn umsögn.
Einnig má senda inn athugasemd með því að senda tölvupóst á velferd@reykjavik.is.
Frestur til að skila inn umsögn er 8. mars 2021.