Jón Hjartarson hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2021 fyrir handrit sitt að ljóðabókinni Troðningar. Bókin kemur í verslanir í dag, JPV útgáfa gefur út.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti Jóni Hjartarsyni Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í dag, miðvikudaginn 20. októbert, við hátíðlega athöfn í Höfða.
Alls bárust 49 óbirt ljóðahandrit í samkeppnina í ár og voru þau send inn undir dulnefni. Reykjavíkurborg hefur veitt Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar frá árinu 1994 og eingöngu fyrir ljóðahandrit frá árinu 2004. Upphæð verðlaunanna í ár 1.000.000 krónur. Reykjavík bókmenntaborg UNESCO hefur umsjón með verðlaununum. Öll vinningshandritin hafa verið gefin út í kjölfarið og hlotið verðskuldaða athygli.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði við athöfnina í Höfða að Jón væri vel að verðlaununum kominn, ekki væri langt síðan ljóðinu var spáð ótímabærum dauðdaga „en það hefur margsannað sig hveru ótímabær sá spádómur var, því gróskan í ljóðlistinni hefur sjaldan verið meiri en undanfarin ár“.
Jón Hjartarson
Jón Jóhann Hjartarson er fæddur 20. janúar 1942 á Hellissandi. Hann útskrifaðist sem kennari frá Kennaraskóla Íslands 1965 og lauk leikaraprófi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur 1968. Jón var jafnframt við framhaldsnám í Berlín 1984.
Jón hefur samið fjölda leikrita bæði fyrir börn og fullorðna, auk barna- og unglingabóka. Fyrsta leikrit hans, Afmælisboðið, er frá 1969. Hann samdi leikgerð upp úr skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur, Mávahlátri, sem sett var upp hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1998. Hann hefur bæði leikstýrt verkum sínum og annarra hjá atvinnuleikhúsum og áhugaleikhópum. Nú síðast kom út ungmennabókin Auga í fjallinu sem Skrudda gaf út 2017.
Jón sagði við athöfnina í dag að hann hafi löngum dáð þjóðskáldin okkar, eins atómskáldin. „ og ég dái þá höfunda sem nú fást við ljóð. Og mér sýnist íslensk ljóðagerð dafna býsna vel sem er gott. Ljóðið ratar til sinna og setur veruleikann svolítið úr skorðum sem er hollt“.
Umsögn dómnefndar
Í dómnefnd sátu: Sif Sigmarsdóttir, Guðrún Sóley Gestsdóttir og Eyþór Árnason.
Í umsögn dómnefndar segir „Troðningar eftir Jón Hjartarson er kraftmikið verk um hið óvænta í hinu augljósa, fegurðina í hversdagsleikanum og mikilfengleika þess smáa. Í bókinni fer Jón um víðan völl. En hvort sem yrkisefnið er náttúran, sagan eða samtíminn er sjónarhornið ávallt óvænt. Þekkt minni eru færð í nýjan búning. Kímnar hvunndagsmyndir eru dregnar upp innan um vísanir í stórskáldin. Hið hversdagslega verður ljóðrænt, hið háfleyga hversdagslegt.
Í ljóðum sínum sýnir Jón fram á að í lífinu leynist margbreytileikinn oft í því einfalda. Þann mótsagnakennda sannleika má heimfæra á verkið Troðninga. Í einföldum myndum sem settar eru saman af hugkvæmni, hlýju og kímni leynist svo miklu meira en virðist við fyrstu sýn.