Jólaljós lýsa upp skammdegið við Seljatjörn

Betri hverfi Mannlíf

Jólaljós á trjám við Seljatjörn

Falleg jólaljós lýsa nú upp skammdegið við Seljatjörn. Íbúar völdu jólaljósin í síðustu íbúakosningu í verkefninu Hverfið mitt og er þessi hugmynd nú komin til framkvæmda til prýðis fyrir hverfið.

Höfundur hugmyndarinnar benti á að ungir sem aldnir gætu notið jólaljósanna en við tjörnina er vinsælt útivistarsvæði, meðal annars hjá skólabörnum. Einnig geta íbúar Seljahlíðar, sem er fyrir eldri borgara, notið birtunnar og hlýleikans beint út um gluggann.

Perla í Seljahverfi

Þegar jólaljósahugmyndin kom fram féll hún strax í góðan jarðveg en eins og einn íbúi sagði: „Myndi lýsa upp þessa perlu Seljahverfis og gera hana enn fallegri í skammdeginu.“ Það eru orð að sönnu.

Það er því mjög jólalegt um að litast við Seljatjörn um þessar mundir og er sannarlega þess virði að gera sér ferð þangað, jafnvel með heitt kakó og piparkökur í farteskinu. Ef það skyldi fara að snjóa eða rigna er hægt að leita skjóls í lysthúsi í garðinum.

Listaverkið sem sést á meðfylgjandi myndum er Móðir mín í kví, kví eftir Ásmund Sveinsson frá árinu 1943.

Hér er hægt að skoða niðurstöður kosninganna - Hverfið mitt.