„Jákvæðir tímar framundan í málefnum barna“

Velferð

""

Elísa Ragnheiður Ingólfsdóttir hefur hafið störf sem skrifstofustjóri hjá Barnavernd Reykjavíkur. Við hlið framkvæmdastjóra ber hún ábyrgð á faglegu starfi þeirra rúmlega sextíu starfsmanna sem sinna ólíkum störfum og hlutverkum hjá Barnavernd Reykjavíkur. 

Í tuttugu ár hefur Elísa Ragnheiður unnið með og fyrir börn. Hún er félagsráðgjafi að mennt, með diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu og er að ljúka meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu. Um árabil starfaði hún hjá Hafnarfjarðarbæ við félagsráðgjöf, barnavernd og stjórnun. Síðustu ár hefur hún starfað hjá Barnaverndastofu ásamt því að starfa sjálfstætt við handleiðslu og verkefnastjórnun. Hún hefur því yfirgripsmikla þekkingu á málefnum barna og fjölskyldna þeirra. „Fyrstu fimm árin mín í starfi, eftir að ég útskrifaðist sem félagsráðgjafi, var ég að vinna „á gólfinu“ í grunnskóla. Þar var ég meðal annars með félagsfærninámskeið og vann með börnum, út frá greiningum og tillögum sálfræðinga. Það var lærdómsríkur tími og góður grunnur. Strax á þessum tíma sá ég að það er langbest að vinna með börn í gengum foreldra þeirra, því það eru þeir sem eru öflugustu liðsmenn sinna barna. Síðan þá hefur það verið lykillinn að minni nálgun. Ég hef lika unnið mikið við að kenna og handleiða fagfólk í því að nota aðferðir PMTO sem ganga út á efla foreldra í sínu hlutverki.“

Elísa var á meðal þess fagfólks sem kom að vinnu við farsældarfrumvarpið svokallaða, sem miðar að því að samþætta þjónustu við börn. Hún fer fögrum orðum um samstarfsfólk sitt hjá Barnavernd Reykjavíkur og hlakkar til að takast á við þær breytingar sem framundan eru. „Mér finnst magnað að sjá hvað það vinnur margt flott fagfólk í Barnavernd Reykjavíkur. Ég er gríðarlega spennt fyrir því að vera hluti af kerfinu, þegar við förum að innleiða allar þær breytingar sem farsældarfrumvarpið leiðir af sér. Þær breytingar byggja á tillögum fagfólks með reynslu og þekkingu. Í gegnum þær hefur verið gert sniðmót að nýju kerfi þar sem nærumhverfi barna verður eflt. Ef vel gengur mun málum fækka hjá okkur í barnaverndinni með tímanum, sem ég held að sé mjög þarft og margt fagfólk hefur lengi kallað eftir. Nú leggjumst við öll á eitt með að leiða þessar breytingar í höfn. Ég trúi því að það séu ótrúlega jákvæðir tímar framundan í málefnum barna.“