Reykjavíkurborg hlaut jafnlaunavottun árið 2019 og hefur nú staðist úttekt vegna fyrstu viðhaldsvottunar.
Jafnlaunavottun er þess eðlis að til að vinnustaðurinn haldi vottuninni þarf hann að sýna fram á áframhaldandi árangur milli ára. Hjá Reykjavíkurborg starfa að jafnaði um tíu þúsund einstaklingar og ærið verk að hljóta jafnlaunavottun og að halda henni á milli ára.
Jafnlaunaúttekt borgarinnar var framkvæmd af Vottun hf. sem nú hefur staðfest að jafnlaunakerfi Reykjavíkurborgar uppfylli þær kröfur sem til þess eru gerðar í jafnlaunastaðli ÍST 85:2012. Staðallinn styðst við trúverðugleika jafnlaunakerfa þ.e. að fram fari launagreining, og til staðar sé starfsflokkunarkerfi og viðmið sem staðfesta með óyggjandi hætti jöfn laun.
Greining á launum starfsfólks Reykjavíkurborgar sýnir að konur voru með 0,9% lægri heildarlaun en karlar árið 2020 þegar litið er á laun alls starfsfólks borgarinnar óháð starfshlutfalli og að teknu tilliti til kyns, aldurs, menntunar, fagaldurs, yfirvinnu og starfaflokka.
Allt frá árinu 1995 hefur borgin stigið skref til þess að útrýma óútskýrðum kynbundnum launamun. Þetta hefur verið gert m.a með gerð aðgerðaráætlana, uppsögnum á fastlaunasamningum, afnámi aksturssamninga og einnig hefur verið innleitt starfsmatskerfi sem var mikilvægt skref á vegferðinni.
Starfsmat er viðurkennd leið til að jafna laun fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf og var matið innleitt hjá Reykjavíkurborg árið tvö þúsund. Með því að taka einnig upp jafnlaunakerfi tryggir það enn frekar sömu kjör óháð kyni.