Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, tekur þátt í ráðstefnunni International Congress for the Prevention of Addiction- Creating að better future for Youth, í Mexíkó, dagana 30. nóvember til 3. desember. Sérstök aðkoma borgarstjóra er að hleypa af stokkunum forvarnarverkefni fyrir börn og unglinga í Mexíkó en verkefnið er byggt á fyrirmynd forvarna Reykjavíkur og Íslands.
Það er héraðsstjóri Guanajuato-héraðs sem er hvatamaður málsins í Mexíkó og er borgarstjóra boðið sérstaklega til að ýta verkefninu úr vör. Dagur mun m.a. ávarpa ráðstefnuna og fjalla um árangur meðal reykvískra unglinga.
Ráðstefnan er samstarf Guanajuato borgar og Planet Youth samtakanna. Íslenskt félagsvísindafólk verður áberandi meðal þeirra sem flytja lykilerindi og Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti er einn þeirra sem opnar ráðstefnuna ásamt borgarstjóra og fyrrnefndum héraðsstjóra.
Tugir borga hyggjast byggja nálgun sína í forvarnarmálum á reynslu og rannsóknarniðurstöðum frá Íslandi og fylgja þannig í kjölfar á annað hundrað borga í Suður-Ameríku, Ástralíu og Evrópu sem hafa tekið upp íslenska forvarnarmódelið síðastliðin ár.