Íbúaráð Reykjavíkurborgar tóku til starfa í árslok 2019 og komu í stað hverfisráða sem voru starfandi í borginni um langa hríð. Íbúaráðin vinna að auknu íbúalýðræði innan borgarinnar og eru mikilvægur samráðsvettvangur Reykjavíkurborgar.
Tilgangurinn með þessu nýja fyrirkomulagi var að styrkja tengingu og stytta boðleiðir á milli borgarbúa og stjórnsýslunnar, stuðla að aukinni upplýsingagjöf til íbúa ásamt því að styrkja möguleika þeirra til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og vekja athygli á áskorunum innan viðkomandi hverfis.
Um tilraunaverkefni er að ræða og því lýkur í júní 2021.
Stýrihópur um innleiðingu íbúaráða, sem haldið hefur utan um verkefnið, mun nú gera tillögu að næstu skrefum til framtíðar. Verið er að vinna að skýrslu þar sem farið verður yfir árangur verkefnisins og til að fá sem gleggsta mynd af reynslu borgarbúa verður nú óskað eftir þeirra áliti á tilraunaverkefninu.
Opnað hefur verið fyrir vefsvæði á vefnum Betri Reykjavík þar sem borgarbúum býðst að koma á framfæri skoðunum sínum og reynslu af störfum íbúaráða/hverfisráða hingað til.
Það er auðvelt að taka þátt, viðkomandi skráir sig inn á Betri Reykjavík eða velur að taka þátt án innskráningar.