Í hugmyndasöfnunni fyrir Hverfið mitt 2021 sem lauk 20. janúar sl. voru öll þátttökumet slegin, og um 1320 hugmyndir voru sendar inn. Sérfræðingar á öllum sviðum borgarinnar hafa nú lokið yfirferðar- og samráðsferli og metið hvaða hugmyndir eru tækar* út frá reglum verkefnisins.
Næsta skref er að velja þær hugmyndir sem fara á kjörseðilinn í hverju hverfi. Það ferli verður nú opnara , gegnsærra og skilvirkara en áður og í nánu samstarfi við íbúaráðin í hverfum borgarinnar. Haldnir verða sérstakir opnir fundir í íbúaráðunum sem verður streymt beint á Facebook, og þar verða ákvarðanir teknar um hvaða hugmyndir verða á kjörseðli hverfanna. Allir sem fylgjast með útsendingunni geta tekið þátt í uppstillingunni. Hver fundur mun standa yfir í 2 tíma frá kl. 17-19.
Dagsetningar fundanna verða sem hér segir:
22. mars Grafarvogur
24. mars Kjalarnes
30. mars Vesturbær
6. apríl Grafarholt og Úlfarsárdalur
14. apríl Miðborg
15. apríl Breiðholt
26. apríl Laugardalur
28. apríl Árbær
6. maí Háaleiti og Bústaðir
20. maí Hlíðar
Fyrirkomulag
Nokkrum dögum fyrir hvern fund verður birtur tengill á svæði þar sem finna má allar þær hugmyndir sem eftir standa innan viðkomandi hverfis. Á síðunni birtast hugmyndirnar og undir hverri þeirra er píla sem smellt er á til þess að velja viðkomandi hugmynd. Fjöldi hugmynda fer eftir stærð hverfisins, hversu margar hugmyndir voru sendar inn í hugmyndasöfnuninni og hversu margar af þeim þóttu framkvæmanlegar.
Heildarfjármagn til ráðstöfunar eru 850 milljónir fyrir hverfin í kosningunni og er upphæðinni skipt niður eftir íbúafjölda. Ákveðið hefur verið að þau hverfi sem hafa yfir 80 milljónir til ráðstöfunar hafi 30 hugmyndir á kjörseðlinum,25 hugmyndir verði á kjörseðlinum í öðrum hverfum.
Öll atkvæði gilda jafnt í uppstillingunni og auðkenningar verður krafist til að koma í veg fyrir endurtekna kosningu. Að fundi loknum liggur fyrir niðurstaða um það hvaða hugmyndir verða á kjörseðlinum í kosningunum sem hefjast 29. september nk.
Nánari upplýsingar um uppstillingu kjörseðla
Ef óskað er frekari upplýsinga er velkomið að hafa samband með tölvupósti í netfangið hverfidmitt@reykjavik.is
*tækar hugmyndir eru þær hugmyndir sem eru framkvæmanlegar út frá reglum verkefnisins sem má finna hér: https://reykjavik.is/hverfid-mitt-almennar-upplysingar-2020-2021