Hvatningarverðlaun velferðarsviðs fyrir árið 2020 voru veitt við hátíðlega athöfn í dag. Fjölmargar tilnefningar bárust en alls voru 22 einstaklingar, hópar eða verkefni tilnefnd til verðlaunanna. Við sama tækifæri var þeim starfsstöðum velferðarsviðs, sem best komu út úr viðhorfskönnun sem lögð var fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar, veitt viðurkenning.
Hvatningarverðlaun velferðarráðs fyrir árið 2020 hlutu Styrmir Erlingsson, stafrænn leiðtogi velferðarsviðs, íbúðakjarninn á Byggðarenda og teymið SELMA sem hleypt var af stokkunum á árinu 2020 til að bæta þjónustu við skjólstæðinga heimahjúkrunar Reykjavíkur. Auk þeirra fengu þau Þorgeir Magnússon, deildarstjóri skólaþjónustu á þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts og Margrét Lísa Steingrímsdóttir, forstöðumaður í skammtímadvölinni Álfalandi, viðurkenningu fyrir farsælt starf á svið velferðarmála.
Fyrirmynd sem sérfræðingur í málefnum fatlaðs fólks, nýsköpun og tækni
Styrmir Erlingsson, stafrænn leiðtogi velferðarsviðs, hlaut hvatningarverðlaunin í flokki einstaklinga. Styrmir hefur komið víða við á velferðarsviði frá því hann hóf þar störf árið 2016. Hann var fyrsti stafræni leiðtoginn sem var ráðinn inn á svið hjá Reykjavíkurborg og í dag vinnur hann jöfnum höndum á velferðarsviði og þjónustu- og nýsköpunarsviði. Styrmir þykir hafa unnið óeigingjarnt starf undanfarin ár. Hann brenni fyrir velferð íbúans og hugsi til framtíðar um hvernig hægt sé að nýta tækni og nýsköpun til að gera velferðarþjónustu enn betri. Þá þykir hann góð fyrirmynd sem sérfræðingur í málefnum fatlaðs fólks, nýsköpun og tækni.
Samheldni, kraftur og sköpunargleði á Byggðarenda
Í flokknum hópar og starfsstaðir hlaut íbúðakjarninn á Byggðarenda hvatningarverðlaunin en það var Ragna Ragnarsdóttir forstöðumaður sem tók á móti þeim ásamt samstarfsfólki sínu. Byggðarendi er íbúðakjarni fyrir fjórar fatlaðar konur sem eru með geðfötlun, þroskahömlun og skyldar raskanir. Auk þess er þar veittur stuðningur í sérverkefni tengd barnavernd. Byggðarendi er flókinn og stór vinnustaður þar sem aðstæður geta breyst mjög hratt. Starfshópurinn á Byggðarenda þykir hafa unnið einstakt starf í gegnum tíðina. Þrátt fyrir að aðstæður séu oft erfiðar einkennist starfsemin þar af samheldni, krafti og sköpunarkrafti. Þá þykir starfshópurinn hafa sýnt umhyggju og sinnt sérstaklega vel krefjandi og flóknu starfi, þegar Covid-ráðstafanir bitnuðu hart á félagslegum þætti þjónustunotenda.
SELMA er gott dæmi um þróun og nýbreytni í velferðarþjónustu
Í flokknum verkefni fékk teymið SELMA hvatningarverðlaun velferðarráðs 2020. Það voru þær Margrét Guðnadóttir, Berglind Víðisdóttir og Stefanía Ósk Guðmundsdóttir sem tóku á móti þeim fyrir hönd teymisins. Í SELMU starfa hjúkrunarfræðingar og læknar sem sinna heimavitjunum vegna veikinda á dagvinnutíma hjá skjólstæðingum heimahjúkrunar. Í samstarfi hjúkrunarfræðinga SELMU, lækna Læknavaktarinnar oghjúkrunarfræðinga og sjúkraliða heimahjúkrunar er unnið að lausnum í heimahúsum. Þannig er oft hægt að flýta greiningu og bataferli. Einnig er komið í veg fyrir að einstaklingar sem annars þyrftu að leita á bráðamótttöku þurfi þess og jafnvel er hægt að komast hjá innlögnum á Landspítala. Teymið þykir stuðla að þróun og nýbreytni í velferðarþjónustu, þar sem eftirtektarverð alúð hefur verið lögð í alla þætti og verkefnið úthugsað miðað við tilgang og markmið sem eru einkar skýr.
Heiðruð fyrir farsælt starf á sviði velferðarmála
Þá hlutu þau Þorgeir Magnússon, deildarstjóri skólaþjónustu á þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts og Margrét Lísa Steingrímsdóttir, forstöðumaður í skammtímadvölinni Álfalandi, viðurkenningu fyrir farsælt starf á svið velferðarmála. Margrét Lísa hefur starfað hjá Reykjavíkurborg í áratugi og verið forstöðumaður Álfalands frá árinu 1987. Í starfi sínu þykir hún hafa sýnt brennandi áhuga á starfi með fötluðum börnum og foreldrum þeirra sem bæði hefur birst í viðhorfskönnun starfsmanna sem og ummælum foreldra þeirra barna sem fá þjónustu Álfalands.
Þorgeir Magnússon hefur unnið fyrir Reykjavíkurborg í yfir 30 ár. Hann þykir allan þann tíma hafa haft hagsmuni barna og fjölskyldna þeirra að leiðarljósi. Hann hefur síðastliðin 16 ár unnið sem deildarstjóri skólaþjónustunnar í þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts. Það sem helst þykir einkenna Þorgeir í lífi og starfi er traust á milli starfsmanna og hans en einnig á milli foreldra, barna þeirra og hans. Þá hafi hann þann eiginleika að geta hlustað og hjálpað starfsmönnum að finna lausn á vanda þegar þörf er á.
Verðlaunin fyrst veitt árið 2011
Auglýst var eftir tilnefningum til hvatningaverðlauna velferðarsviðs, bæði utan og innan borgarinnar. Hægt var að tilnefna einstakling, starfsstað eða verkefni fyrir eftirtektaverða alúð, þróun eða nýbreytni varðandi hvaðeina sem við kemur velferðarmálum og unnið var að á árinu 2020. Einnig mátti tilnefna einstakling fyrir farsælt starf á sviði velferðarmála og veita viðurkenningar fyrir athyglisverð verkefni.
Í valnefnd vegna verðlaunanna voru Heiða Björg Hilmisdóttir, Örn Þórðarson, Regína Ásvaldsdóttir og Anna Guðmundsdóttir. Velferðarráð veitti í fyrsta sinn hvatningarverðlaun árið 2011. Markmið verðlaunanna er að skapa hvetjandi vinnustaðamenningu og vekja athygli á gróskumiklu starfi í velferðarmálum Reykjavíkurborgar, auk þess að stuðla að aukinni nýbreytni og þróunarstarfi.
Starfsstaðir sem best komu út úr viðhorfskönnun einnig verðlaunaðir
Við sama tækifæri voru þeim starfsstöðum velferðarsviðs sem best komu út úr viðhorfskönnun sem lögð var fyrir starsfólk Reykjavíkurborgar í mars veittar viðurkenningar.
Verðlaun fyrir besta árangur á velferðarsviði í flokki minni starfsstaða hlaut íbúðakjarninn á Þórðarsveigi 1–5. Kjarninn var opnaður árið 2010 en þar búa fimm geðfatlaðir einstaklingar og þar starfa tíu starfsmenn. Auk þess veitir kjarninn stuðning til einstaklinga sem búa sjálfstætt. Í flokki stærri starfsstaða hlaut Miðgarður, þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness, viðurkenningu en í ráðgjafaþjónustunni þar starfa um 50 starfsmenn.
Hástökkvarar velferðarsviðs í viðhorfskönnuninni í flokki smærri starfsstaða voru íbúðakjarnar í Bríetartúni 26 og 30. Þar eru íbúðakjarnar fyrir geðfatlaða einstaklinga sem opnaðir voru árið 2009. Á kjörnunum starfa 17 starfsmenn í þjónustu við 14 íbúa en auk þess veitir kjarninn stuðning til einstaklinga sem búa sjálfstætt. Í flokki stærri starfsstaða hlaut Þjónustumiðstöð Breiðholts viðurkenninguna en í ráðgjafaþjónustunni þar starfa um 60 starfsmenn.