Reykjavíkurborg leitar eftir samstarfsaðilum sem hafa uppi áform um uppbyggingu húsnæðis án hagnaðarsjónarmiða í borginni á næstu tíu árum. Bæði getur verið um að ræða aðila sem byggja húsnæði á grundvelli stofnframlaga Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en einnig aðila sem vinna utan þess.
Í auglýsingu sem birtist í dag hafa áhugasamir aðilar frest til og með 26. maí til að lýsa yfir áhuga sínum og skila inn upplýsingum, sem munu nýtast Reykjavíkurborg við að móta framtíðaráætlun um úthlutun lóða í borginni. Á vefsíðunni Íbúðauppbygging: Tækifæri fyrir húsnæðisfélög kemur fram að leitað er að upplýsingum um reynslu aðila að uppbyggingu íbúða, fjárhagslegri getu þeirra, auk upplýsinga um skipulag og samþykktir.
Verkefnið er hluti af Græna plani Reykjavíkurborgar sem miðar að því að skapa græna, vaxandi borg fyrir fólk. Í efnahagsvídd Græna plansins kemur meðal annars fram að í borginni byggist árlega upp 1.000 íbúðir og þar af 250 íbúðir á vegum húsnæðisfélaga.