Borgarráð samþykkti viljayfirlýsingu milli Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar um ráðstöfun lóðarinnar á Sturlugötu 9 til Norðurslóðar, húss Stofnunar Ólafs Ragnars Grímssonar.
Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands eru sammála um að lóðin að Sturlugötu 9 verði ráðstafað til norðurslóðaverkefna og þar verði framtíðarheimili Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle.
Ef stofnunin þarf ekki að nýta alla lóðina verður henni skipt með eignaskiptasamningi. Aðrir hlutar lóðarinnar en þeir sem heyra undir Norðurslóð verði nýttir fyrir klasa sem myndaður er af vísindafólki, verkefnum og fyrirtækjum á sviði sjálfbærni, umhverfis-, auðlinda-, náttúrufars- og loftslagsrannsókna. Gert er ráð fyrir að klasinn verði annað hvort á forræði Háskóla Íslands eða Vísindagarða Háskóla Íslands og verði í nánum tengslum við þá starfsemi sem nú fer fram í Öskju, fyrirhugaða starfsemi í Norðurslóð og aðra starfsemi á svæði Háskóla Íslands og Vísindagarða. Lóðin var áður hugsuð fyrir Listaháskólann en nú ert ljóst að hann fer í Tollhúsið.
Úthlutun lóðarinnar er í samræmi við niðurstöðu nefndar sem skipuð var af forsætisráðherra og í sátu fulltrúar frá forsætisráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum í Reykjavík og Hringborði Norðurslóða.