Svandís Anna Sigurðardóttir er sérfræðingur um málefni hinsegin fólks á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu. Svandís geislar af orku og gleði og ekki annað hægt en að smitast af áhuga hennar og þekkingu. Svandís Anna er ein af fólkinu okkar í borginni.
Svandís hefur brennandi áhuga á málefnum hinsegin fólks enda sjálf hinsegin. Hún nam sagnfræði við Háskóla Íslands en langaði að fá meiri fjölbreytni í námið og valdi fyrir forvitnissakir kynjafræðina. Þar naut hún þess að kynnast nýrri hugsun og fjölbreyttari sýn á kyn og kynverund. Frá kynjafræði spratt áhuginn á hinsegin málefnum. Hún er núna fyrsti starfsmaður hins opinbera sem starfar að hinsegin málefnum. Reykjavíkurborg vinnur að því að gera starfsstaði sína hinseginvænni og býður upp á sérstaka Regnbogavottun sem inniheldur fræðslu og efni sem vinnustaðir geta sóst eftir. Tveir vinnustaðir hafa þegar hlotið regnbogavottun Reykjavíkurborgar en það eru Vesturbæjarlaug og Ylströndin.
Svandís átti óvenjulega æsku þar sem hún bjó ýmist hér heima á Íslandi eða á Nýja Sjálandi en lengra getur vart verið á milli staða. Hún bjó fyrstu æviárin á Flateyri en þar kynntust foreldrar hennar en móðir hennar, Christine, hafði komið ásamt fleira fólki frá Nýja Sjálandi til að vinna í fiski.
Þegar hún var fimm ára fluttist fjölskyldan til Nýja Sjálands til heimalands móður sinnar. Fjórum árum síðar komu þau aftur heim og enn og aftur lá leiðin út við upphaf unglingsára. Hún þekkir því vel að aðlagast nýjum aðstæðum. „Þá flytjum við vegna skilnaðar pabba og mömmu. Ég á tvær fósturjarðir alla barnæskuna en þarf oft að mynda vinatengsl upp á nýtt“ segir Svandís. Á Íslandi er mjög algengt að vinskapur sem myndast í grunn- og menntaskóla haldist ævina út en Svandís náði ekki að mynda slík tengsl vegna tíðra flutninga. Átján ára kom Svandís aftur til Íslands og hefur búið hér að mestu síðan.
Á Nýja Sjálandi æfði Svandís netball (netbolti) og því valdi hún að spila körfubolta með stúdentum þegar hingað var komið. Þar eignaðist hún góða vini auk þess að stunda íþróttir.
Aðspurð um hvort hún fari ekki oft til Nýja Sjálands segist hún kannski ekki fara oft því það er ansi kostnaðarsamt og vegna fjarlægðarinnar borgi sig ekki að fara fyrir minna en þrjár til fjórar vikur í senn og helst lengur. Landið á margt sameiginlegt með Íslandi s.s. firði, fossa, jökla og eldfjöll en svo eru þarna líka framandi gróður, fjölbreytt dýralíf og strendur en þar er miklu hlýrra en hér á Íslandi.
En víkjum aftur að hinsegin málum og hvað gerir þau svo áhugaverð? „Að öðlast aðra sýn á kyn og kynverund og fleira er svo frelsandi. Við erum öll ólík og svo margir falla ekki að norminu og það er svo gott að skilja hvaða hugmyndir eru ríkjandi í samfélaginu og áhrifin sem þau geta haft og líka gott að fá frelsi undan þeim,“ segir Svandís.
Í starfi sínu skoðar Svandís flókin málefni hinsegin fólks frá mörgum hliðum en fræðsla er stór hluti starfsins. Svandís segir fræðslu á málefnum hinsegin fólks oftar en ekki opna huga fólks á málefninu og það er svo gaman að sjá þessa opnun í andlitum fólks.
Fólk leitast við að setja allt í mót og hefur oftar en ekki staðlaðar hugmyndir um kyn og kynverund. Sjálf hefur Svandís verið í sambandi við konu sína í næstum 18 ár en hún flokkar sig frekar pankynhneigða en lesbíu, en er ekki mjög föst í eigin skilgreiningum. Hún finnur að tvær konur með börn eru „ekki eins og við“. En hver eru þessi við? Það er alltaf áhugavert að rýna í normið, en það sem telst „venjulegt“ fær oft að vera óáreitt og við hugsum sjaldan um það, en það er einmitt eitt af styrkleikum hinsegin fræða, að rýna og varpa ljósi á normið.
Það getur fylgt því töluvert álag að vera í minnihluta. Hinsegin fólk er jaðarsett og hefur orðið fyrir ofbeldi vegna þess sem það er. Sem betur fer gerist það æ sjaldnar hér heima en minnihlutaálagið er til staðar. Þá er átt við að vitneskjan um að geta orðið fyrir leiðindum, útskúfun, fordómum og jafnvel ofbeldi er til staðar, hvort sem það muni gerast eða ekki, og það hefur áhrif. Það er því mikilvægt að hinsegin fólk fái þau skilaboð frá borginni fyrirfram að það sé raunverulega velkomið, nokkuð sem er unnið að með Regnbogavottun Reykjavíkurborgar.
Allir vinnustaðir geta sótt um að fá regnbogavottun. Vottunin felst í hálfs dags fræðslu og verkefnum og þegar því er lokið fær vinnustaðurinn merki, límmiða og upplýsingabækling sem vitnisburð um að hafa fengið fræðsluna. Merkið er hægt að hafa við inngang vinnustaðarins til vitnis um að hann hafi hlotið vottunina.
Hægt er að hafa samband við Svandísi vilji vinnustaður fá regnbogavottun. Það er líka hægt að fá styttri fræðslu en hún lagar fræðsluna að óskum vinnustaðarins. Næstu vikur mun hún t.d. sinna fræðslu til starfsfólks grunnskóla með áherslu á hinsegin börn, ekki síst trans börn.
Svandís vinnur líka að verkefninu Nordic safe cities, situr í starfshópum, í úttektarhópi um jafnlaunavottun og hefur unnið að verkefninu hinsegin fólk og heimilisofbeldi svo eitthvað sé nefnt.Hún er líka sjálfsskipuð gleðideild mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu en eftir sérstaklega erfiðan vetur var ákveðið að það þyrfti að nýta hvert tækifæri til að gleðjast og vera þakklát. „Í haust ræddum við um þungan vetur sem væri framundan og spurði ég hvort það væri ekki tilvalið að nýta öll tækifæri, stór sem smá, til að brjóta upp vinnudaginn og gleðjast. Ég var þá spurð hvort ég vildi ekki bara sjá um það og þar með var ég sjálfsskipaður formaður og eini meðlimur gleðideildarinnar!“ segir Svandís að lokum.
#Fólkiðokkar #Fólkiðíborginni