Hækkun á tekjumörkum til hagsbóta fyrir tekjulægri hópa

Velferð

""

Borgarráð samþykkti í gær verulega hækkun tekjuviðmiða vegna sérstaks húsnæðisstuðnings. Undanfarna mánuði hefur þeim fjölgað sem sækja um stuðninginn hjá Reykjavíkurborg.

Borgarráð samþykkti í gær tillögu borgarstjóra um hækkun á tekjumörkum vegna sérstaks húsnæðisstuðnings um 11,9%. Þá verða eignamörk hækkuð um 7,23%. Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárstuðningur vegna greiðslu á húsaleigu sem kemur til viðbótar við húsnæðisbætur ríkisins. Hann er ætlaður til að koma til móts við leigukostnað einstaklinga og fjölskyldna sem eru með lágar tekjur, þunga framfærslubyrði eða erfiðar félagslegar aðstæður.

Hækkun á skerðingarmörkum er sambærileg og vegna almennra húsnæðisbóta en umfram nýjar leiðbeiningar félagsmálaráðuneytisins frá því í desember síðastliðnum, sem kváðu á um að tekjumörk yrðu hækkuð um 3,6 prósent og eignamörk um 7,23%.

Hækkunin leiðir til þess að lífeyrisþegi almannatrygginga sem á rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi, býr einn og hefur ekki aðrar tekjur mun njóta óskerts stuðnings. „Með þessari hækkun komum við í veg fyrir víxlverkun greiðslna og skerðinga hjá umtalsverðum fjölda einstaklinga sem fá sérstakar húsnæðisbætur,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs. Hún áætlar að breytingin muni hafa áhrif á allt að 650 einstaklinga. 

Á síðari hluta ársins 2020 varð mikil aukning á fjölda greiðslna á sérstökum húsnæðisstuðningi.

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 er gert ráð fyrir að meðaltali 2.958 greiðslum á sérstökum húsnæðisstuðningi á mánuði, og heildarupphæð sem nemur 1.049 milljónir króna á ársgrundvelli. 

Kostnaðaraukning vegna hækkunar á tekjumörkum er áætluð um 50 milljónir króna á árinu 2021. Breytingarnar gilda frá 1. janúar 2021.