Styrkur svifryks (PM10) er hár í borginni í dag, 26. maí. Klukkan 12.00 var klukkustundargildi svifryks við Grensásveg 138 míkrógrömm á rúmmetra. Ekki virðist fylgja þessu sérstök hækkun í styrk brennisteinsdíoxíðs en upptökin virðast samblanda af mold og sandryki frá Mýrdalssandi og söndum meðfram suðurströndinni.
Í mælistöð í Fjölskyldu- og húsdýragarði var klukkutímagildið á sama tíma 70 míkrógrömm á rúmmetra og í mælistöð við Vesturbæjarlaug 162,4 míkrógrömm á rúmmetra. Í mælistöð á gatnamótum Bústaðarvegar og Háaleitisbrautar var klukkustundargildið, 155,2 míkrógrömm á rúmmetra. Sólarhringsheilsuverndarmörk fyrir svifryk (PM10) eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.
Þau sem eru viðkvæm fyrir í öndunarfærum og börn ættu að forðast útivist ef þau finna fyrir óþægindum.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á loftgæði.is. Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík og annars staðar á landinu.
Búast má við svipuðum veðurskilyrðum fram á föstudag samkvæmt spá Veðurstofu Íslands og er fólk því hvatt til að fylgjast með á Loftgæði.is.
Litakóði loftgæðavefsins
Loftgæðavefur Umhverfisstofnunar metur loftgæði með eftirfarandi litakóða:
Mjög góð = Lítil sem engin loftmengun. Líklega engin heilsufarsleg áhrif.
Góð = Lítilsháttar loftmengun. Lítil sem engin heilsufarsleg áhrif.
Sæmileg = Nokkur loftmengun. Mjög viðkvæmir einstaklingar og einstaklingar með astma eða aðra undirliggjandi lungna- og/eða hjartasjúkdóma geta fundið fyrir einkennum vegna aukins styrks loftmengunarefna í andrúmslofti.
Óholl fyrir viðkvæma = Þónokkur loftmengun. Viðkvæmir einstaklingar og einstaklingar með astma eða aðra undirliggjandi lungna- og/eða hjartasjúkdóma geta fundið fyrir einkennum vegna loftmengunar.
Óholl = Mikil loftmengun. Einstaklingar með alvarlega hjarta- og/eða lungasjúkdóma ættu að forðast að vera úti þar sem hætta er á mikilli mengun. Forðast ætti að vinna erfiðisvinnu eða að stunda líkamsrækt utandyra þar sem loftmengun er mikil.