Græn lífsgæðaborg fyrir fólk er aðalmarkmiðið

Mannlíf Stjórnsýsla

""

Óskar Jörgen Sandholt sviðsstjóri þjónustu og nýsköpunarsviðs í viðtali við ítalska útgáfu Forbes viðskiptatímaritsins.

Óskar Jörgen Sandholt, sviðsstjóri þjónustu- og nýsköpunarsviðs Reykjavíkurborgar, er í ítarlegu viðtali við ítalska útgáfu af hinu virta viðskiptablaði Forbes sem birtist í apríl þar sem hann fer yfir áætlanir borgarinnar um að hraða stafrænum tæknilausnum, uppbyggingu snjallra innviða, orkuskipti og Græna planið sem er fjárfestingaráætlun Reykjavíkurborgar til að bregðast við efnahagssamdrætti sem heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur skapað.

Í viðtalinu ræðir Óskar þróun borgarinnar á ýmsum sviðum. Hann segir m.a. að smæðin veiti Reykjavík tækifæri til hraðari ákvarðanatöku. Fagsvið borgarinnar hafi farið vel yfir það á síðustu árum hvernig hægt sé að tæknivæðast til að veita betri þjónustu. Hann segir það hins vegar ekki vera aðalmarkmiðið lengur hversu „snjallvædd“ borgin sé heldur séu aukin lífsgæði íbúanna aðalmarkmiðið.

Borgin þurfi að bjóða upp á góðar lausnir fyrir íbúa og gesti eins og hraðar almenningssamgöngur og aðra innviði sem auðveldi íbúunum lífið í stað þess að einblína eingöngu á tæknilausnir. Þannig sé hugtakið snjallborg orðið svolítið þreytt þar sem snjalllausnir þjóni oft á tíðum frekar efnameiri íbúum en þeim sem hafi minna á milli handanna.

Síðustu tíu árin hafi Reykjavíkurborg haldið úti vel heppnuðum íbúalýðræðisverkefnum sem hafi vakið mikla athygli erlendis.  Verkefnin Betri Reykjavík og Hverfið mitt hafi virkað vel en í þeim eru snjallar lausnir nýttar til þess að fá íbúana með í samtal um hugmyndir og verkefni í borginni.

„Það er mjög mikilvægt að fá eins marga íbúa að borðinu og mögulegt er en það getur verið snúið t.d. þegar upp koma hugmyndir eins og reisa styttu af hinum heimsfræga bandaríska rappara, Kanye West, sem var mjög vinsæl hugmynd en er kannski eitthvað sem borgin hefur ekki endilega hug á að framkvæma, eða hugmyndir um að setja upp öryggismyndavélar út um allt í borg sem er frekar örugg,“ segir hann m.a. í viðtalinu.

Óskar segir einnig frá endurnýjanlegum orkuauðlindum Íslands sem auðveldi mjög orkuskipti í samgöngum sem séu á fullri ferð því sprenging hafi orðið í sölu á rafbílum, rafhjólum, rafskutlum og hjólreiðum á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavíkurborg vinni að þremur meginmarkmiðum varðandi þróun borgarinnar: Þéttingu byggðar, grænni og kolefnishlutlausri borg og borg fyrir fólk.

Þá ræðir Óskar um Græna planið sem er efnahagsáætlun Reykjavíkurborgar til að mæta samdrætti vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Mikilvægur hluti af þeirri fjárfestingaáætlun snýst um að hraða stafrænum tæknilausnum borgarinnar. „Reykjavík ætlar að verða framúrskarandi stafræn þjónustuborg á næstu þremur árum með því að hraða fjárfestingu í stafrænni tækni. Fyrri áætlun gerði ráð fyrir að sú þróunin tæki tíu ár,“ segir Óskar J. Sandholt.