Á leikskólanum Kvistaborg er mikil áhersla lögð á hreyfingu og íþróttir og heldur fagmenntaður íþróttakennari utan um þann hluta starfsins. Um þessar mundir njóta börnin þess að hafa glæsilegan íþróttasal og það kunna þau vel að meta.
Málefni Kvistaborgar hafa verið í umræðunni vegna uppfærslu á húsnæði leikskólans og rakaskemmda sem þar komu upp. Nú í september var öll starfsemin færð tímabundið í Safamýri 5, þar sem Safamýrarskóli var áður, en vonast er til þess að skólastarfið færist aftur í Fossvogsdalinn fyrir jól.
Í Safamýrinni er stór íþróttasalur og hefur Katla Björg Ómarsdóttir, sem er mastersnemi í íþróttakennslu og verkefnastjóri hreyfingar á Kvistaborg, skipulagt markvisst hreyfistarf með börnunum þar sem salurinn nýtist afar vel.
„Ég bý til kennsluáætlun fyrir allar deildirnar og laga hreyfinguna að mismunandi getustigi. Ég reyni að hafa þema í hverjum mánuði og bý til alls konar skemmtilega leiki,“ segir Katla. „Hjá okkur fá börnin að upplifa þetta svipað og tíðkast í grunnskólunum, þ.e. að íþróttakennari sjái um hreyfikennsluna. Öll börnin fá markvissa hreyfingu hjá mér og svo hreyfa þau sig líka í útikennslu og öðru leikskólastarfi.“
Skemmtun og agi haldast í hendur
Katla er afar ánægð með íþróttaaðstöðuna í Safamýri. „Við fengum til dæmis körfuboltakörfur og salurinn er í frábærri stærð, svo það er hægt að fara í hópleiki og búa til stóran þrautahring,“ segir hún. Og krakkarnir kunna að meta aðstöðuna. „Ójá,“ segir Katla með áherslu. „Þau spyrja alltaf hvort það séu ekki íþróttir í dag, þótt þau séu nýbúin. Þau vilja helst vera alltaf í salnum. En svo er líka svo gott að þegar þau koma í íþróttasalinn vita þau að þar á að fylgja ákveðnum reglum. Þau eiga að fara úr sokkunum, það á að setjast fyrst í miðjuna og það á að hlusta og horfa þegar kennarinn sýnir hvað á að gera. Þótt það sé gaman hérna inni þá ríkir líka ákveðinn agi og þau halda eiginlega sjálf utan um það.“
Katla segir um að ræða góðan grunn fyrir frekari íþróttaiðkun síðar meir. „Markmiðið mitt er að börnin stundi fjölbreytta hreyfingu og bæti þannig hreyfifærni sína. Ég geri hreyfimælingar til að sjá hvar þau eru stödd og býð upp á æfingar sem styrkja þau ef þess er þörf.“ segir hún. „En svo er markmiðið líka bara að fá útrás fyrir orkuna og hafa gaman.“
Að velja sér viðhorf
Guðrún Þorleifsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri Kvistaborgar, tekur í sama streng. „Þessi tímabundna lausn hér í Safamýri er mjög góð og íþróttasalurinn vinnur með okkur. Ég vildi óska þess að allir væru með svona aðstöðu,“ segir hún. „Það skiptir miklu máli í leikskólastarfi að hafa fagmenntað fólk og hérna verður það svo sýnilegt. Við erum komin með fagmenntaðan íþróttakennara sem veit hvar börnin eru stödd í hreyfiþroskanum og áttar sig á hvar þarf að grípa inn í, sem er hluti af þessari mikilvægu faglegu þekkingu inni á leikskólanum.“
Guðrún hefur ekki starfað lengi á Kvistaborg en kveðst ánægð með áhersluna sem þar sé lögð á hreyfingu og útiveru. „Leikskólinn er í samstarfi við Víking sem býður elstu deildum leikskólanna í hverfinu tíu vikna samstarf þar sem íþróttakennari tekur á móti börnunum. Þetta er frábært og nú er verið að skoða að við fáum að nýta útiaðstöðu á Fram-svæðinu á meðan við erum í Safamýrinni.“
Guðrún segir flutningana í Safamýri hafa gengið ótrúlega vel. „Þetta var vel skipulagt; mikil vinna en góð vinna. Eldri börnin höfðu fengið að koma fyrir flutningana til að kynnast húsnæðinu og íþróttasalnum og fannst spennandi að flytja hingað. Þau yngri höfðu ekki komið áður en hér hafa allir það gott. Foreldrarnir leggja á sig mikið aukaálag við að koma börnunum hingað en ég held að þeir séu sáttir við það því þeir finna að börnunum líður vel,“ segir Guðrún. „Aðstaðan í Safamýri er ekki sniðin fyrir leikskólastarf en það er hægt að nota hana í svona tímabundnum aðstæðum og íþróttasalurinn bjargar okkur algjörlega. Ýmislegt við aðstæðurnar skapar álag fyrir starfsfólk og það er ekki hægt að líta framhjá því sem er íþyngjandi, en þetta er alltaf spurning um að velja sér viðhorf og horfa á það sem gott er.“
Allir að gera sitt besta
Starfsfólk hefur sýnt mikla aðlögunarhæfni og Guðrún segir leikskólastjórann, Guðrúnu Gunnarsdóttur, hafa staðið sig afar vel. Þá haldi húsnæðið í Safamýri vel utan um hópinn. „Hér er nálægð milli fólks, sem er gott í svona breytingaferli og hér getum við til dæmis verið saman með eina kaffistofu. Okkur líður ótrúlega vel hérna og vonum bara að það verði búið vel að okkur þegar við komum til baka, ég trúi því. Allir vinna hörðum höndum að því að koma okkur aftur í dalinn en það verður auðvitað að taka sinn tíma; það eru Covid-tímar sem hefur sín áhrif. En allir eru að gera sitt besta og á meðan líður okkur vel hér.“