„Góð brýning fyrir okkur öll, sem störfum með og fyrir börn“ 

Velferð Skóli og frístund

""

Nú er að hefjast af krafti vinna sem miðar að því að samþætta þjónustu við börn, unglinga og fjölskyldur þeirra í nærumhverfinu, eða í fjórum borgarhverfum. Vinnan fer fram í gegnum fjóra starfshópa, auk verkefnastjórnar. Hóparnir hafa til hliðsjónar tillögur stýrihóps um heildstæða þjónustu fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir sem samþykktar voru á sameiginlegum fundi skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs þann 8. júní 2021. 

 Verkefnastjórn hefur yfirumsjón með vinnunni, fylgist með því að verkefni hópanna skarist ekki og að samfella sé í vinnu þeirra. Hákon Sigursteinsson, sem áður gegndi stöðu framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur, leiðir þetta starf. „Við erum með góða blöndu af reynslumiklu fólki úr báðum heimum, úr velferðarþjónustu og skóla- og frístundastarfinu,“ segir Hákon. Í starfshópunum eru leikskólastjórar, skólastjórar, stjórnendur frístundaheimila, auk skrifstofustjóra og annars fagfólks af báðum sviðum. 

  • Einn hópur hefur það hlutverk að undirbúa innleiðingu verkefnisins Betri borg fyrir börn í öll hverfi borgarinnar.  
  • Annar hópur vinnur niður biðlista í skólaþjónustu, tilkominn meðal annars vegna Covid-19, og að fækka þeim málum þar sem beðið er eftir þjónustu sálfræðinga og talmeinafræðinga.    
  • Þriðji hópurinn hefur undirbúning að rafvæðingu á umsóknarferli um skólaþjónustu þar sem ferlið verður endurskoðað í heild sinni út frá þörfum notenda. 
  • Fjórði hópurinn styður við og þróar enn frekar faglegt mat á árangri af sérkennslu, sértækum stuðningi í skóla- og frístundastarfi, skólaþjónustu og þjónustu velferðarsviðs við börn og fjölskyldur.

Það eru farsældarlögin svokölluðu sem liggja til grundvallar þeirri vinnu sem framundan er. Hákon segir samþykkt þeirra laga afar mikilvæga fyrir börn og fjölskyldur í landinu. „Ég er mjög hrifinn af farsældarlögunum. Þemað í þeim er einfalt: Vertu vakandi, bregstu við og komdu á þeim samskiptum og samstarfi sem þú þarft að koma á, ef þú verður var við að barn þarfnast aðstoðar. Þetta er mjög góð brýning fyrir okkur öll, sem störfum með og fyrir börn. Þetta þýðir að við þurfum að finna leiðir til að vinna betur saman. Til þess þurfum að vera með skýrt, notendanvænt, gegnsætt og stafrænt verklag og það er það sem við erum að fara að byggja upp.“ 

Hákon segir hugarfar einu stærstu áskorunina sem framundan sé, enda þurfi allir sem starfi með börnum sem þurfa aukna aðstoð að breyta vinnulagi sínu. „Við erum öll svo fókuseruð á okkar verkefni en nú þurfum við að tileinka okkur að horfa á heildarmyndina út frá barninu. Börn sem þurfa flóknari þjónustu en önnur eru oft í þeirri stöðu vegna þess að nærumhverfi þeirra er brothætt eða að ekki hefur tekist að koma til móts við þarfir barnsins. Þá er svo mikilvægt að við umvefjum barnið, setjum allan fókusinn á það, hvort sem við erum til dæmis kennari eða félagsráðgjafi á þjónustumiðstöð. Við þurfum að mynda traust á milli kerfa, á milli fagaðila, þjónustustiga og ekki síst fjölskyldna þessara barna.“

Hákon er hins vegar viss um að fólk úr báðum kerfum eigi eftir að styðja vinnuna, því það finni sjálft að þörf er á heildrænni endurskoðun á innra og ytra stoðkerfi skólanna og  frístundamiðstöðvanna. „Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir því að allir séu tilbúnir að fara í bátana og vinna þetta saman. Ég sé fyrir mér aukna samvinnu, traust og skilning milli þeirra sem koma að þjónustu við börn. Það mun vonandi skila sér í ánægðara starfsfólki, ánægðari foreldrum og það sem mikilvægast er, ánægðari börnum.“